Körfubolti

Stólarnir skríða upp töfluna - unnu Snæfell í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Rafn Viggósson.
Helgi Rafn Viggósson. Mynd/ÓskarÓ
Tindastóll vann mikilvægan tveggja stiga sigur á Snæfelli, 81-79 í Dominosdeild karla í körfubolta í kvöld en sigurinn losar liðið ekki bara við mesta falldrauginn heldur kom liðinu fyrir alvöru inn í baráttuna um síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

Snæfellingar áttu möguleika á að komast upp að hlið Grindvíkinga á toppnum með sigri og voru í fínum málum í fyrri hálfleik en slæmir leikkaflar í seinni hálfleik urðu liðinu að falli.

Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, var flottur í kvöld en hann skoraði 23 stig og var stigahæsti leikmaður liðsins. Jay Threatt var með 30 stig fyrir Snæfell en það dugði ekki til.

Tindastóll var 21-19 yfir eftir fyrsta leikhlutann en góður annar leikhluti skilaði Snæfellsliðinu sjö stiga forskot í hálfleik, 46-39. Það tók Stólana aðeins átta mínútur að komast fjórum stigum yfir í þriðja leikhlutanum en Tindastóll var 61-59 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Snæfell var 65-63 yfir þegar sjö mínútur voru eftir en Tindastólsmenn unnu næstu fimm mínútur 15-6 og komust í 78-71. Snæfell náði að minnka muninn í eitt stig, 80-79, en Stólarnir héldu úr og unnu sinni þriðja heimasigur í röð.



Tindastóll-Snæfell 81-79 (21-19, 18-27, 22-13, 20-20)

Tindastóll: Helgi Rafn Viggósson 23/6 fráköst, Tarick Johnson 21, George Valentine 12/11 fráköst, Drew Gibson 8/6 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 5, Hreinn Gunnar Birgisson 5, Svavar Atli Birgisson 5, Þröstur Leó Jóhannsson 2/4 fráköst.

Snæfell: Jay Threatt 30/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ryan Amaroso 16/16 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 10, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 8/5 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 8, Sveinn Arnar Davíðsson 4/4 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 2, Ólafur Torfason 1/5 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×