Körfubolti

Skallagrímsmenn enduðu sigurgöngu Keflavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson.
Páll Axel Vilbergsson. Mynd/Vilhelm
Sjö leikja sigurganga Keflavíkur í Dominos-deild karla í körfubolta endaði í kvöld þegar Skallagrímur vann sjö stiga sigur á Keflvíkingum, 75-68. Það hefur lítið gengið hjá Skallagrími að undanförnu en Borgnesingar voru frábærir í Fjósinu í kvöld.

Það munaði vissulega miklu um það að Magnús Þór Gunnarsson lék ekki með Keflavíkurliðinu í kvöld. Carlos Medlock skorðai 27 stig fyrir Skallagrím og Páll Axel Vilbergsson var með 19 stig. Michael Craion skoraði 25 stig fyrir Keflavík en Billy Baptist sem tapaði sínum fyrsta deildarleik á Íslandi var bara með 7 stig.

Skallagrímsmenn unnu annan leikhlutann 22-13 og voru átta stigum yfir í hálfleik, 44-36. Borgnesingar náðu mestu fjórtán stiga forskoti í þriðja leikhlutanum, 62-48, en Keflavík minnkaði muninn í tíu stig fyrir lokaleikhlutann.

Skallagrímsmenn héldu út í fjórða leikhlutanum og unnu gríðarlega mikilvægan en jafnframt óvæntan sigur á sjóðheitu Keflavíkurliði.

Skallagrímur-Keflavík 75-68 (22-23, 22-13, 18-16, 13-16)

Skallagrímur: Carlos Medlock 27/7 fráköst/6 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 19/9 fráköst, Hörður Helgi Hreiðarsson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sigmar Egilsson 7/7 fráköst, Davíð Ásgeirsson 6, Trausti Eiríksson 4/9 fráköst, Birgir Þór Sverrisson 2, Orri Jónsson 2.

Keflavík: Michael Craion 25/13 fráköst, Darrel Keith Lewis 19/6 fráköst/5 stoðsendingar, Billy Baptist 7/8 fráköst/3 varin skot, Almar Stefán Guðbrandsson 5/5 fráköst, Hafliði Már Brynjarsson 4, Valur Orri Valsson 4, Snorri Hrafnkelsson 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×