Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir 93 - Þór Þ. 105

Benedikt Grétarsson skrifar
Mynd/Valli
Þórsarar unnu öruggan sigur gegn baráttuglöðum Fjölnismönnum í kvöld, 93-105. Fjölnir hefur nú tapað 9 leikjum í röð en Þórsarar berjast áfram um toppsætið í Dominos-deildinni.

Þórsarar voru sterkari frá fyrstu mínútu en náðu ekki að slíta sig almennilega frá baráttuglöðu liði Fjölnis. Undirtökin voru hjá gestunum en góðir sprettir heimamanna héldu þeim á lífi. Þar munaði mest um framlag Magna Hafsteinssonar, sem var klókur í vörn og sókn.

Þórsarar hittu prýðilega utan af velli og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-29. Í upphafi annars leikhluta virtist sem sterkt Þórsliðið ætlaði að skilja óreynt lið Fjölnis eftir í rykmekki. Bakverðir Þórs sköpuðu mikil vandræði fyrir unga leikmenn Fjölnis og það skilaði sér í auðveldum körfum hinumegin á vellinum.

Gestirnir voru komnir með þægilega 14 stiga forystu um miðjan leikhlutan, 24-38 og ekkert útlit fyrir annað en öruggan sigur Þórs.

Góður sprettur Fjölnis kom þeim aftur inn í leikinn en á þessum kafla gerðu Þórsarar sig seka um mikið kæruleysi á báðum endum vallarins.

Þór náði að endurheimta tök sín á leiknum að einhverju leyti á síðustu mínútum hálfleiksins og leiddu með 11 stigum í hálfleik, 44-55.

Síðari hálfleikur var á löngum köflum spegilmynd þess fyrri. Þór hélt undirtökunum en heimamenn komu með góða spretti inn á milli.

Breiddin í liði Þórs var þeirra sterkast vopn og liðið fékk fín framlög frá mörgum leikmönnum. Fjölnismenn voru drifnir áfram af góðum leik Magna Hafsteinssonar og Christopher Smith en þá vantaði meiri hjálp frá öðrum leikmönnum.

Þór bætti hægt og sígandi við forskot sitt og þegar fjórði leikhlutinn hófst, höfðu gestirnir öruggt 17 stiga forskot. Leikurinn varð svo hálf tætingslegur í fjórða leikhluta, þar sem liðin spiluðu slaka vörn og einstaklingsframtakið fékk að njóta sín.

Þórsarar lönduðu að lokum öruggum 12 stiga sigri, 93-105 og verður það að teljast sanngjörn niðurstaða. Sóknarleikur liðsins var fínn frá fyrstu mínútu en vörnin var ekki alveg að virka á löngum köflum. Fjölnismenn skoruðu mikið inni í teig Þórsara en reyndar verður að gefa Sunnlendingum hrós fyrir að ná að loka ágætlega á langskot Fjölnis.

Þór er því áfram í bullandi toppbaráttu en Fjölnismenn, sem hafa tapað 9 leikjum í röð, eru með falldrauginn andandi ofan í hálsmálið.

Benedikt: Viljum vera tilbúnir í alla leikiBenedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var bæði sáttur og ósáttur eftir leik. „Varnarleikurinn hjá okkur var köflóttur en það má kannski segja að þetta hafi verið ákveðinn fórnarkostnaður hjá okkur. Við lögðum allt kapp á að stoppa bakverðina hjá þeim, enda held ég að möguleikar Fjölnis á að vinna leiki, liggi í því að bakverðir liðsins fari í gang."

Liðsheild Þórsara var sterk í kvöld og Benedikt hrósaði sínum mönnum fyrir að leggja sig alla fram. „Við erum að fá fín framlög frá öllum og bekkurinn skilar góðri vinnu. Ég er mjög sáttur við að klára þennan leik, sérstaklega í ljósi þess að við höfum verið í bölvuðu basli að klára svona leiki. Það má eiginlega segja að leikir okkar við liðin sem eru fyrir neðan okkur í deildinni, hafi verið okkar lélegustu og erfiðustu leikir."

Þjálfarinn litríki var algjörlega með það á hreinu hvernig lið Þór frá Þorlákshöfn ætti að vera. „Við þurfum að halda okkar línu og vera þetta "blue-collar, hard-working, dont give a shit-lið" sem mætir tilbúið í alla leiki og bera ekki virðingu fyrir liðum sem hafa unnið 50 titla en ekki síður að bera virðingu fyrir liðum sem eiga að vera veikari en við."

Hjalti: Mikið sem við þurfum að laga

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, var frekar daufur eftir leikinn. „Mér fannst við mæta tilbúnir til leiks og menn voru að leggja sig alla fram. Það var annað en í tapleiknum Hólminum um daginn. Það voru bara alltof mikið af klaufalegum mistökum hjá okkur og við vorum ekkert að hitta. Varnarlega eru við svo að ná okkur í klaufalegar villur og hleypa þeim á línuna eftir skoraða körfu."

Fjölnismenn skoruðu grimmt í teignum en vantaði ógn fyrir utan. „Við hittum ekki nema tveimur af tuttugu þriggja stiga skotum, sem er auðvitað ekki nógu gott hjá okkur. Þetta var hraður leikur en við þurfum að skoða helling af hlutum í okkar leik upp á framhaldið. Það eru fjórir leikir eftir og við þurfum bara klára það af krafti. Það er engin ástæða til annars."

Fjölnir-Þór Þ. 93-105 (22-29, 22-21, 25-36, 24-19)

Þór Þ.: David Bernard Jackson 27/15 fráköst, Benjamin Curtis Smith 26/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 17/5 fráköst, Darrell Flake 10/8 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 8, Darri Hilmarsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 0/4 fráköst.

Fjölnir: Christopher Smith 28/9 fráköst/4 varin skot, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 23/11 fráköst, Isacc Deshon Miles 15/8 fráköst/8 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 11/5 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 8, Gunnar Ólafsson 8.

Leik lokið: Fjölnir 93 - Þór 105. Öruggur sigur Þórs.

4.leikhluti: Fjölnir 88 - Þór 102. Þór rýfur 100-stiga múrinn en varnarleikur liðsins hefur verið betri.

4.leikhluti: Fjölnir 80 - Þór 98. 2:46 til leiksloka og ljóst að vinir Herjólfs landa sigrinum. Ágæt barátta heimamanna en Þór er bara með betra lið.

4.leikhluti: Fjölnir 78 - Þór 97. Þristur frá Guðmundi Jónssyni og síðan stela Þórsarar boltanum. Ásetningsvilla er dæmd á Fjölni og nú er þetta búið.

4.leikhluti: Fjölnir 76 - Þór 91. Benjamin Curtis Smith skorar fyrstu körfu Þórs í leikhlutanum þegar um 5:30 eru eftir. Kappinn fylgir því eftir með körfu og vítaskoti að auki. Þetta gæti reynst rýtingurinn í hjarta Fjölnismanna.

4.leikhluti: Fjölnir 74 - Þór 86. Enn minkkar forskotið. Erum við að sjá endurkomu í Dalhúsum?

4.leikhluti: Fjölnir 71 - Þór 86. 6:39 eftir og Þór hefur ekki ennþá skorað stig. Benedikt þjálfari er mjög ósáttur við sína menn og tekur leikhlé.

3.leikhluta lokið: Fjölnir 69 - Þór 86. Þetta lítur vel út hjá Þór. Það þarf eitthvað mikið að gerast til að þeir tapi þessum leik.

3.leikhluti: Fjölnir 67 - Þór 82. Sóknarleikur Þórs mallar með miklum ágætum og þeir fara væntanlega í þriggja stafa tölu hér í kvöld.

3.leikhluti: Fjölnir 60 - Þór 74. Sunnlendingar eru sterkari og það stefnir í níunda tap Fjölnis í röð. Þór hefur einfaldlega úr svo mörgum kanónum að velja en Fjölnir þarf að treysta á miklu færri menn.

3.leikhluti: Fjölnir 56 - Þór 65. Nú eru það heimamenn sem spila fína vörn og leikmenn Þórs eru pirraðir. Dómarar leiksins biðja menn að sýna kurteisi.

3.leikhluti: Fjölnir 52 - Þór 65. Þór hefur síðari hálfleik betur en heimamenn. Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðsins, hefur eflaust brýnt sína menn í hálfleik.

3.leikhluti: Fjölnir 44 - Þór 55. Síðari hálfleikur hafinn

Hálfleikur: Fjölnir 44 - Þór 55. Þórsarar halda til leikhlés með 11 stiga forystu. Þeir hafa verið sterkari allan leikinn en Fjölnismenn halda sér inni í leiknum með mikilli baráttu og góðum sprettum.

2.leikhluti: Fjölnir 44 - Þór 53. Flottur sprettur heimamanna. 23 sek.eftir af hálfleiknum.

2.leikhluti: Fjölnir 39 - Þór 53. Stóru mennirnir hjá Þór eru að pína Fjölni í augnablikinu.

2.leikhluti: Fjölnir 39 - Þór 49. Erlendir leikmenn Þórs fá á sig sóknarvillur og heimamenn ganga á lagið. Það eru sprækir strákar í þessu Fjölnisliði og sterkir Þórsarar þurfa að halda einbeitingu.

2.leikhluti: Fjölnir 33 - Þór 49. Grétar Ingi rífur niður sóknarfrákast og skilar honum í körfuna. Grétar kann að skora, það vita allir.

2.leikhluti: Fjölnir 31 - Þór 45. Ég var rétt nýbúinn að spá endurreisn Fjölnis, þegar gestirnir svara með góðum kafla. 5:17 eftir af fyrri hálfleik.

2.leikhluti: Fjölnir 29 - Þór 40. Chris Smith fíflar Grétar Inga og treður auðveldlega. Fjölnismenn eru aðeins að vakna eftir þessi þungu högg Þórsara í upphafi annars leikhluta.

2.leikhluti: Fjölnir 24 - Þór 38. Bakverðir Þórs eru að setja unga og óreynda bakverði Fjölnis í mikil vandræði. Fjölnir tapar boltanum trekk í trekk og Þórsarar þakka fyrir sig með auðveldum körfum. Leikhlé - Fjölnir

1.leikhluta lokið: Fjölnir 22 - Þór 29. Rándýr þristur í lok leikhlutans frá Darra og Þórsarar skyndilega komnir með 7 stiga forystu. Þetta er lið sem getur skorað mikið á skömmum tíma.

1.leikhluti: Fjölnir 22 - Þór 26. Darri Hilmarsson sýnir góð tilþrif, í vörn og sókn. Nú eru það gestirnir sem eru sterkari.

1.leikhluti: Fjölnir 20 - Þór 20. Magni heldur áfram að valda Þórsurum alls kyns vandræðum með styrk sínum og klókindum.

1.leikhluti: Fjölnir 16 - Þór 16. Leikurinn er að jafnast og það er ágæt barátta í vörninni hjá heimamönnum. menn eru byrjaðir að tala saman og þetta lítur betur út hjá Fjölnismönnum.

1.leikhluti: Fjölnir 8 - Þór 12. Gamla kempan, Magni Hafsteinsson, kveikir smá líf í sínum mönnum með góðum körfum.

1.leikhluti: Fjölnir 3 - Þór 10. Gestirnir mæta grimmir og spila prýðilega vörn. Langskot Þórsara eru hnitmiðuð en Fjölnismenn virka frekar stressaðir.

1.leikhluti: Leikurinn hafinn og heimamenn vinna uppkastið

Fyrir leik: Það hefur veikt lið Fjölnis mikið að framherjinn Jón Sverrisson er meiddur og verður ekki meira með á þessu tímabili. Jón sleit krossbönd í leik gegn Stjörnunni og þunnskipaður hópur Fjölnis mátti ekki við slíku áfalli.

Fyrir leik: Grétar Ingi Erlendsson, leikmaður Þórs, hefur vakið mikla athygli á þessu tímabili. Það er ekki síst vegna ótrúlegs árangurs í líkamlegu ástandi kappans en Grétar missti um 55 kg á aðeins 20 mánuðum. Vel gert.

Fyrir leik: Hinn gamalreyndi leikmaður, Christopher Smith, er kominn aftur til Fjölnis en hann hefur einnig spilað með Haukum og Njarðvík í efstu deild. Smith er með flotta tölfræði með Fjölni á þessu tímabili, 24,4 stig og 12,4 fráköst.

Fyrir leik: Þessi lið mættust í Þorlákshöfn 16.nóvember sl. og þar unnu heimamenn nokkuð þægilegan sigur, 92 – 83. Benjamin Curtis Smith fór hamförum í þeim leik og skoraði 46 stig fyrir Þór. Darrell Flake bætti við 23 stigum og því skoruðu þeir félagar 69 stig, sem gerir 75% af stigum liðsins. Sylvester Cheston Spicer skoraði 21 stig og tók 15 fráköst fyrir Fjölni en sá ágæti maður er farinn til síns heima.

Fyrir leik: Þórsarar hafa spilað 7 leiki á nýju ári. Þór hefur unnið fjóra af þessum leikjum en tapað þremur. Þar ber sennilega hæst óvænt tap Þórs á heimavelli gegn Skallagrími frá Borgarnesi, 72 – 76.

Fyrir leik: Gestirnir frá Þorlákshöfn hafa hins vegar verið í glimrandi málum í vetur. Liðið situr í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, hafa unnið 12 leiki en tapað 5. Þór frá Þorlákshöfn fór alla leið í úrslitaleikina um Íslandsmeistartitilinn í fyrra en tapaði þar fyrir Grindavík eftir harða baráttu.

Fyrir leik: Þessi slæma taphrina Fjölnis þýðir að liðið situr í ellefta og næstsíðasta sæti Dominos-deildarinnar með 8 stig. Fjölnir hefur ekki unnið leik síðan liðið vann góðan útisigur gegn ÍR, 86 – 88, en sá leikur var spilaður 6.desember 2012.

Fyrir leik: Heimamenn byrjuðu mótið af miklum krafti og unnu þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum. Síðan var eins og allur vindur væri úr Grafavogspiltum og leiðin hefur legið þráðbeint niður á við. Fjölnir hefur tapað hvorki meira né minna en 8 leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld og þarf því sárlega á sigri að halda.

Fyrir leik: Hér verður leik Fjölnis og Þórs í Domino's-deild karla lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×