Körfubolti

Darri spilar ekki meira með Þór í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darri Hilmarsson
Darri Hilmarsson Mynd/Vilhelm
Darri Hilmarsson og Baldur Þór Ragnarsson verða ekki með Þórsurum á lokasprettinum í Dominos-deild karla og gætu báðir misst af restinni af tímabilinu. Þetta staðfesti Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, í viðtali við Morgunblaðið í morgun.

Darri meiddist í sigurleik á móti Tindastól á föstudagskvöldið þegar viðbeinið færðist frá bringubeini. Hann fer ekki í aðgerð, verður frá í tíu til tólf vikur og tímabilið er því búið hjá honum. Darri er gríðarlega mikilvægur fyrir Þór á báðum endum vallarins og þetta er því mikið áfall fyrir Þorlákshafnarliðið.

Baldur Þór Ragnarsson er kviðslitinn og fer í aðgerð á fimmtudaginn. Hann gæti mögulega náð undanúrslitunum í úrslitakeppninni en liðið þarf þá að komast þangað án Darra og Baldurs.

Þór er með Snæfelli í 2. til 3. sæti deildarinnar með 28 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Þór hefur fjögurra stiga forskot á liðin í 4. og 5. sæti en liðið á eftir að mæta Keflavík, Snæfelli og Skallagrími.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×