Handbolti

Daniel Svensson með krabbamein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Svensson í leik með Lübbecke.
Daniel Svensson í leik með Lübbecke. Nordic Photos / Getty Images
Danski handboltamaðurinn Daniel Svensson hefur greinst með krabbamein en hann er á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Lübbecke.

Svensson er þrítug skytta sem spilaði lengst af í Danmörku áður en hann hélt til Spánar árið 2010. Hann var í eitt ár hjá Toledo áður en hann samdi við Lübbecke.

Hann greindist með svokallaðan Hodgkins-sjúkdóm eða eitilfrumukrabbamein. Félagið greindi frá þessu í vikunni og ljóst að Svensson mun ekki spila með liði sínu á næstunni.

Svensson hefur ekkert spilað með Lübbecke síðan um áramót en hann er þess fullviss að hann geti sigrast á meininu. „Miðað við aldur og líkamlegt form eru batahorfur mínar mjög góðar," sagði í yfirlýsingu frá Svensson.

„Ég er baráttumaður og er sannfærður um að ég muni vinna þennan bardaga."

Svensson á að baki átta leiki með danska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×