Handbolti

Óvænt töp í úrslitakeppninni í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson.
Einar Ingi Hrafnsson.
Úrslitakeppnin í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta hófst í kvöld og var nokkuð um óvænt úrslit.

Mors-Thy, sem hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar, vann tveggja marka sigur á Skjern, 28-26, en síðarnefnda liðið varð í öðru sæti deildarkeppninnar. Átján stig skildu liðin að í deildinni.

Einar Ingi Hrafnsson skoraði þrjú mörk fyrir Mors-Thy í leiknum í kvöld en staðan í hálfleik var 10-10.

Þá hafði Århus (6. sæti) óvænt betur gegn Bjerringbro/Silkeborg (3. sæti), 29-28. Guðmundur Árni Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Bjerringbro/Silkeborg í leiknum.

Átta efstu lið deildarinnar komast í úrslitakeppninni og er skipt í tvo riðla. Áðurnefndir leikir voru báðir í riðli 2.

Í hinum riðlinum voru úrslitin eftir bókinni. Deildarmeistarar Kolding unnu SönderjyskE á útivelli, 29-24. Atli Ævar Ingólfsson skoraði þrjú mörk fyrir SönderjyskE en Anton Rúnarsson ekkert. Þá hafði Álaborg betur gegn Team Tvis, 33-22.

Það var einnig spilað í úrslitakeppninni í úrvalsdeild kvenna. Viborg, lið Óskars Bjarna Óskarssonar þjálfara, hafði betur gegn KIF Vejen á útivelli, 34-28.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×