Körfubolti

Bara yfir í 44 sekúndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Grindavík og Stjarnan spila í kvöld fyrsta leik sinn í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfubolta. Leikur kvöldsins fer fram í Röstinni í Grindavík, hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Grindavík og Stjarnan bættu bæði við sig erlendum leikmönnum á miðju tímabili en hafa mæst tvisvar sinnum með núverandi erlendu leikmenn sína. Í bæði skiptin hafa Stjörnumenn verið með nokkra yfirburði en þeir unnu þessa tvo leiki með samtals 34 stigum.

Það vekur líka athygli að Grindvíkingar náðu aðeins að vera yfir í 44 sekúndur í þessum tveimur leikjum á meðan að Stjörnuliðið var yfir í 76 mínútur og 24 sekúndur.

Grindvíkingar komust í 4-2 og 14-12 í fyrsta leikhlutanum í fyrri leiknum en hafa ekki komist yfir síðan á áttundu mínútu í bikarúrslitaleiknum. Stjörnumenn hafa unnið sjö af átta leikhlutum og sá áttundi endaði jafn. Stjarnan náði mest 19 stiga forskoti í bikarúrslitaleiknum og komst mest 24 stigum yfir í deildarleiknum.

Tveir leikir Grindavíkur og Stjörnunnar á árinu 2013:

16. febrúar, Laugardalshöll, bikarúrslit: Grindavík – Stjarnan 79-91 (Stjarnan +12)

24. Febrúar, Ásgarður, deildin: Stjarnan – Grindavík 104-82 (Stjarnan +22)

Grindavík með forystuna:  44 sekúndur

Jafnt:  2 mínútur og 52 sekúndur

Stjarnan með forystuna:  76 mínútur og 24 sekúndur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×