Handbolti

Óvænt tap hjá Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Nordic Photos / Getty Images

Kiel vinnur ekki þrefalt í ár, eins og í fyrra. Það varð ljóst eftir að liðið tapaði fyrir Hamburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag, 39-33.

Fyrirfram reiknuðu flestir með sigri Kiel sem vann Hamburg tvívegis í deildinni í vetur. Kiel er þar að auki búið að tryggja sér báða stóru titlana heima fyrir þetta tímabilið.

En leikmenn Hamburg mættu gríðarlega vel stemmdir til leiks í dag og eftir jafnar upphafsmínútur sigu þeir fram úr. Mestur varð munurinn í stöðunni 19-13 en Kiel skoraði síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks og gekk til búningsklefa þremur mörkum undir.

Hamburg sleppti ekki takinu í seinni hálfleik, sama hvað Kiel reyndi. Þýsku meistararnir þurftu á endanum að játa sig sigraða og gengu bugaðir af velli.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk í leiknum en hann var að spila til undanúrslita í þessari keppni þriðja árið í röð. Hann hefur aldrei komist í úrslitaleikinn.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark en spilaði minna en hann hefði sjálfsagt sjálfur kosið. Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel.

Pascal Hens skoraði átta mörk fyrir Hamburg og Hans Lindberg sjö. Hamburg mætir Barcelona í úrslitaleiknum á morgun.

Kiel leikur gegn pólska liðinu Kielce um bronsverðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×