Handbolti

Útlitið svart hjá Þýskalandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Michael Haas og Patrick, Groetzki verða líklega ekki með í Danmörku í janúar.
Michael Haas og Patrick, Groetzki verða líklega ekki með í Danmörku í janúar. Nordicphotos/Getty
Flest bendir til þess að karlalandslið Þýskalands í handbolta verði ekki meðal þátttökuþjóða á Evrópumótinu í Danmörku í janúar þrátt fyrir sigur á Ísrael í dag.

Þeir þýsku leiddu með níu mörkum í hálfleik 21-12 í hálfleik gegn Ísrael í Aschaffenburg. Þeir bættu við forystu sína í síðari hálfleiknum og unnu stórsigur 38-19.

Þjóðverjar urðu að treysta á að Tékkar töpuðu sínum leik á heimavelli gegn Svartfellingum en svo fór aldeilis ekki. Tékkarnir tóku gestina í kennslustund og unnu öruggan sigur 30-25 eftir að hafa leitt 16-9 í hálfleik.

Tékkar standa uppi sem sigurvegarar riðilsins með betri árangur í innbyrðisviðureignum gegn Svartfellingum.

Þjóðverjar hafa verið meðal þátttökuþjóða á EM óslitið frá fyrsta mótinu í Portúgal árið 1994. Liðið varð Evrópumeistari árið 2004, fékk silfur í Svíþjóð 2002 og brons á Ítalíu 1998.

Eitt lið í þriðja sæti riðlanna sjö tryggir sér sæti á mótinu. Þýskaland fékk aðeins tvö stig úr leikjum sínum gegn Svartfellingum og Tékkum. Því er ljóst að leikmenn liðsins og stuðningsmenn þurfa að leggjast á bæn fyrir lokaleiki riðlakeppninnar á morgun og vona að úrslit verði liðinu hagstæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×