Handbolti

Einar Ingi og Þórey Rósa til Noregs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Þórey Rósa Stefánsdóttir.
Handboltaparið Einar Ingi Hrafnsson og Þórey Rósa Stefánsdóttir eru á leið til Noregs en þau hafa undirritað samninga við úrvalsdeildarfélög þar í landi. Einar Ingi staðfesti þetta við Vísi í kvöld.

Einar Ingi mun leika með ØIF Arendal sem hafnaði í sjötta sæti deildarkeppninnar í fyrra en komst alla leið í lokaúrslit úrslitakeppninnar þar sem liðið tapaði fyrir Elverum. Arendal keppir því í EHF-bikarnum á næstu leiktíð.

Þórey Rósa samdi við Våg Vipers sem hafnaði einnig í sjötta sæti í úrvalsdeild kvenna. Liðið komst þó ekki áfram úr sínum riðli í úrslitakeppninni í vor.

Vipers er í Kristiansand og Arendal ekki langt undan. Þau léku síðast í Danmörku þar sem Einar Ingi var á mála hjá Mors-Thy og Þórey Rósa hjá Team Tvis Holstebro. Báðum liðum gekk vel á síðustu leiktíð og komust langt í úrslitakeppninni í Danmörku. Þá varð Team Tvis Evrópumeistari.

Samningar þeirra eru bæði til tveggja ára með uppsagnarákvæði eftir eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×