Körfubolti

Keflvíkingar stríða gömlum liðsfélaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Mynd/Vilhelm
Grindavík vann tíu stiga sigur á Keflavík í fyrsta leik Ljósanæturmóts Geysis í gær, 83-93, en þetta var jafnframt fyrsti leikur Keflavíkurliðsins undir stjórn bandaríska þjálfarans Andy Johnston.

Grindvíkingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár og mæta aftur með sterkt lið í ár. Grindvíkingar mæta ÍR-ingum klukkan 20.00 í kvöld og tryggja sér sigur á Ljósanæturmótinu með sigri.

"Glögg merki um breyttan leikstíl hjá Keflavík með tilkomu Andy Johnston og var rúllað hratt og mikið á mönnum.," segir í frétt um leikinn á heimasíðu Keflvíkinga.

Þorleifur Ólafsson var stigahæstur hjá Grindavík með 26 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 22 stig. Arnar Freyr Jónsson skoraði mest fyrir Keflavík eða 18 stig en Magnús Þór Gunnarsson var með 14 stig.

Keflvíkingar stríddu gömlum liðsfélaga sínum, miðherjanum Sigurði Gunnari Þorsteinssyni, þegar þeir settu myndaband úr leiknum inn á netið þar sem Sigurði mistókst að troða í hraðaupphlaupi. Það er hægt að sjá myndbandið hér fyrir neðan. Keflvíkingar eru á því að Sigurður hafi týnt fluggírnum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×