Körfubolti

Gaui missti af því þegar fyrsti heimasigurinn kom í hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Angantýsson var flottur í gær.
Ágúst Angantýsson var flottur í gær. Mynd/Daníel
Fjölnir Baldursson hefur tekið saman flott myndband frá leik KFÍ og Snæfells í Domnios-deild karla í körfubolta sem fram fór í Jakanum í gærkvöldi en Ísfirðingar unnu þar sinn fyrsta heimasigur í deildinni í vetur.

KFÍ vann Snæfell 89-80 þar sem Ágúst Angantýsson átti stórleik og skoraði 28 stig og tók 10 fráköst. Jason Smith skoraði 26 stig og Valur Sigurðsson var með 17 stig.

KFÍTV var að sjálfsögðu með leikinn í beinni og Vísir fékk að streyma útsendingunni í gærkvöldi. Fjölnir Baldursson fór síðan í það að taka saman flottustu tilþrifin og má sjá þau hérna fyrir neðan.

Guðjón M. Þorsteinsson, guðfaðir körfuboltans á Ísafirði og stjórnarmaður félagsins til margra ára, fékk þó ekki að upplifa það þegar fyrsti heimasigurinn kom í hús.

„Í gær var furðulegur dagur. Stóð á haus í vinnu allan daginn og fór svo á leikinn hjá strákunum þar sem lýsti fyrri hálfleik?? Já fyrri hálfleik! Þurfti svo að sinna fjölskyldunni og fékk sms að við hefðum sigrað Snæfell. Það voru blendnar tilfinningar að fá svona fréttir. Fyrst rosalega stoltur að strákunum, en sorgmæddur yfir að vera ekki á staðnum að lýsa þessu og það eru ekki margir leikirnir sem ég hef misst af á 30+ árum. EN fjölskyldan er samt mikilvægari og þar skiptir máli að vera alltaf til staðar," skrifaði Guðjón inn á fésbókarsíðu sína.

Við skulum vona það hans vegna að leikmenn KFÍ-liðsins séu ekki hjátrúarfullir og líti á það sem happa ef Gaui fari í hálfleik en framundan er gríðarlega mikilvægur heimaleikur hjá KFÍ-liðinu á móti Val.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×