Handbolti

Guðjón Valur efstur í netkosningu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Guðjón Valur Sigurðsson er besti vinstri hornamaður heims samkvæmt lesendum handball-planet.com.

Fréttavefurinn hefur síðustu vikur staðið að fyrir vali á bestu handboltamönnum heims en ellefu blaðamenn frá jafn mörgum löndum í Evrópu höfðu atkvæðisrétt. Tólfta atkvæðið kom svo frá lesendum síðunnar.

Alls bárust tæplega 150 þúsund atkvæði í könnuninni, þar af tæplega átján þúsund fyrir stöðu vinstri hornamanns. Guðjón Valur fékk flest atkvæði í þeim flokki eða 7.383 talsins eða 41 prósent greiddra atkvæða.

Þegar atkvæði blaðamannanna höfðu svo verið talin kom í ljós að Anders Eggert, leikmaður Flensburg og danska landsliðins, fékk fjórtán stig en okkar maður þrettán.

Þjóðverjinn Uwe Gensheimer, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, varð svo í þriðja sæti með sex stig.

Þess má geta að í kosningu lesenda síðunnar fékk Anders Eggert 37 prósent atkvæðanna og Gensheimer 22 prósent.

Besti handboltamaður heims var valinn Domagoj Duvnjak, leikmaður Hamburg, sem mun ganga til liðs við Kiel í sumar.

Guðjón Valur var eini íslenski leikmaðurinn sem var á meðal þriggja efstu í kosningunni. Hins vegar má nefna að Daninn Hans Lindberg, sem á ættir að rekja til Íslands, varð valinn besti hægri hornamaður heims.

Bestu leikmenn ársins:

Vinstri hornamaður: Anders Eggert

Vinstri skytta: Siarhei Rutenka

Leikstjórnandi: Domagoj Duvnjak

Hægri skytta: Laszlo Nagy

Hægri hornamaður: Hans Lindberg

Línumaður: Julen Aguinagalde

Markvörður: Arpad Sterbik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×