Handbolti

Íslendingaliðin unnu sína leiki í franska handboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Gunnarsson.
Robert Gunnarsson. Mynd/AFP
Íslendingaliðin Paris Saint-Germain, HBC Nantes og Saint Raphaël unnu öll sína leiki í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og alls litu fimm íslensk mörk dagsins ljós í leikjum liðanna.

Paris Saint-Germain vann sex marka heimasigur á Tremblay, 29-23, en liðið endaði þar með tveggja leikja taphrinu sína. PSG er búið að vinna alla sex heimaleiki sína á tímabilinu en töpin í síðustu tveimur útileikjum gaf Dunkerque færi á að taka toppsætið.

Róbert Gunnarsson nýtti öll þrjú skotin sín í leiknum en Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað. Daniel Narcisse og Marko Kopljar voru markahæstir með fimm mörk hvor en Mikkel Hansen skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum.

Nantes vann fimm marka útisigur á AIX, 27-22, og hefur nú unnið þrjá leiki í röð. Nantes er nú í fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliðinu.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði 2 mörk út 5 skotum í leiknum en Valero Rivera var markahæstur með 10 mörk úr 11 skotum. Jorge Maqueda Peno skoraði átta mörk fyrir Nantes-liðið. Gorazd Skof átti mjög góðan leik í markinu.

Arnór Atlason lék ekki með Saint Raphaël vegna meiðsla en liðið vann 30-28 útisigur á  US Ivry og er nú í sjötta sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Nantes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×