Handbolti

Serbar fyrstir til að vinna þær dönsku á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Serbía vann eins marks sigur á Danmörku, 23-22, í stórleik dagsins á HM kvenna í handbolta í Serbíu. Serbar tryggðu sér með þessum sigri sæti í sextán liða úrslitum en Danir voru komnir áfram fyrir leikinn.

Serbar komust þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum en staðan var 12-12 í hálfleik. Danska liðið var í fínum málum þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka en þær dönsku voru þá tveimur mörkum yfir, 19-17. Serbar skoruðu þá fimm mörk í röð og gerðu með því út um leikinn.

Maria Fisker og Louise Burgaard skoruðu báðar fjögur mörk fyrir Dani en Andrea Lekic var markahæst hjá Serbíu með sex mörk.

Dönsku stelpurnar voru búnar að vera í miklu stuði á mótinu og höfðu unnið fyrstu þrjá leiki sína með 15 mörkum að meðaltali í leik. Þær serbnesku komu sterkar til baka eftir tap á móti Brasilíu í gær. Brasilía er efst í B-riðlinum með fullt hús eftir fjóra leiki.

Frakkar unnu á sama tíma eins marks sigur á Evrópumeisturum Svartfjallalands, 17-16, en báðar þjóðar voru búnar að vinna þrjá fyrstu leiki sína á mótinu.



Úrslitin á HM kvenna í handbolta í dag:

A-riðill

Dóminíska lýðveldið - Suður-Kórea 20-51

Holland - Austur-Kongó 33-21

Frakkland - Svartfjallaland 17-16

B-riðill

Brasilia - Japan 24-20

Alsír - Kína 25-27

Serbía - Danmörk 23-22




Fleiri fréttir

Sjá meira


×