Handbolti

Tankurinn kláraðist í miðjum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar var orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu þegar hann meiddist. Hér er hann með Ásgeiri Erni Hallgrímssyni.
Rúnar var orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu þegar hann meiddist. Hér er hann með Ásgeiri Erni Hallgrímssyni. Mynd/Stefán
Rúnar Kárason er kominn aftur af stað á nýjan leik, sjö mánuðum eftir að hann gekkst undir aðgerð vegna slitins krossbands í hné. Meiðslin áttu sér stað á landsliðsæfingu í júní síðastliðnum en hann var þá nýgenginn til liðs við þýska úrvalsdeildarfélagið Grosswallstadt.

Æfingaleikur liðsins gegn Erlangen í gær var því fyrsti leikur Rúnars með „nýja" félaginu sínu en hann hefur spilað sem atvinnumaður í Þýskalandi síðan 2009.

„Þetta gekk bara ágætlega," sagði Rúnar í samtali við Fréttablaðið í gær. „Ég var búinn að æfa alla vikuna en mátti reyndar ekki fara í neinn „kontakt" þá. Liðsfélaganir máttu ekki brjóta á mér," sagði Rúnar sem sagði það því hafa verið viðbrigði að spila alvöru handbolta á ný eftir langa endurhæfingu.

„Það er hægt að vera duglegur í lyftingasalnum og á brettinu en þegar maður byrjar svo að spila á ný þarf að byggja upp allt öðruvísi þol. Tankurinn var því orðinn algerlega tómur hjá mér þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum," sagði Rúnar.

Grosswallstadt mætir Wetzlar á föstudaginn í fyrsta deildarleik sínum eftir HM-frí og segir Rúnar að það hafi alltaf verið stefnt að því að spila þann leik. „Sem betur fer hafa ekki komið nein bakslög hingað til og tel ég mig vera nokkuð heppinn með að geta spilað sjö mánuðum eftir aðgerð," sagði Rúnar og bætir við að þessi tími hafi ekki verið sá skemmtilegasti á handboltaferlinum.

„Ég myndi ekki óska mínum verstu óvinum að slíta krossband í hné – ekki að ég eigi neina óvini," sagði hann í léttum dúr. „Það er að mörgu að huga í svona bataferli og maður þarf að halda vel á spilunum næstu mánuðina til að koma líkamanum aftur í fyrra horf."

Fram undan er mikil fallbarátta hjá Grosswallstadt en liðið er í næstneðsta sæti þýsku deildarinnar með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×