Körfubolti

Aukaæfingarnar á morgnana eru vel sóttar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Mynd/Valli
Elvar Már Friðriksson fékk stóra tækifærið í fyrravetur eins og fleiri ungir leikmenn Njarðvíkurliðsins í karlakörfuboltanum þegar stjórnin hjá Njarðvík ákvað að veðja á efniviðinn í félaginu.

„Ég var kannski ekki alveg að búast við að menn tækju þessa ákvörðun því þetta félag hefur alltaf verið sigursælt. Ég er þakklátur fyrir þetta, ætla að nýta tækifærið og æfi þá bara enn meira. Þetta gefur manni aukaorku og hvetur mann áfram," segir Elvar Már, sem hefur hitt úr 11 af 19 síðustu þriggja stiga skotum sínum (57 prósent) og þakkar aukaæfingunum fyrir.

„Ég held að aukaæfingarnar séu að skila sér. Ég er búinn að vera að skjóta meira á aukaæfingunum en hugarfarið er líka stór hluti af þessu. Það hjálpar sjálfstraustinu ef maður æfir auka," segir Elvar Már og bætir við:

„Við reynum að mæta á morgunæfingarnar. Það er mikil samkeppni um mínútur í liðinu og það vilja því allir mæta aukalega. Þú vilt ekki að maður sem er að berjast við þig um mínútur sé að mæta meira en þú því við vitum að þetta skilar sér inni á vellinum," segir Elvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×