Handbolti

Sorglegt hjá Wetzlar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, varaformaður HSÍ, fór yfir mál Kára á blaðamannafundi í síðustu viku. Kári er honum á hægri hönd.
Guðmundur B. Ólafsson, varaformaður HSÍ, fór yfir mál Kára á blaðamannafundi í síðustu viku. Kári er honum á hægri hönd. Fréttablaðið/Stefán
Kári Kristján Kristjánsson vildi sem fæst orð hafa um þau orð sem Björn Seipp, framkvæmdastjóri þýska úrvalsdeildarliðsins Wetzlar, birti í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins í gær.

„Það er mjög sorglegt hvernig þetta er allt saman matreitt," sagði Kári við Fréttablaðið í gær en hann var þá nýkominn til Wetzlar þar sem hann býr með fjölskyldu sinni, konu og tveimur börnum.

„Ég mun eftirleiðis láta minn lögfræðing um að svara fyrir mig. Ég mun ekki leysa þetta í gegnum fjölmiðla," sagði hann enn fremur.

Seipp ítrekaði afstöðu félagsins í yfirlýsingunni en fyrir helgi var Kára Kristjáni sagt upp störfum eftir að hann spilaði með íslenska landsliðinu. Kári gekk nýverið undir aðgerð á baki þar sem góðkynja æxli var fjarlægt og hafði verið frá keppni síðan í febrúar.

Seipp ítrekaði að Kári hefði aldrei fengið leyfi hjá læknum félagsins til að taka sig af sjúkralista félagsins og spila með íslenska landsliðinu í Slóveníu. „Það er fullkomlega ósatt. Það var heldur enginn misskilningur á milli læknanna og Kára," sagði Seipp í yfirlýsingu félagsins.

Hann fór yfir ferlið í löngu máli og sagði að Kári hefði blekkt sig, þjálfara liðsins og læknana með því að segjast vilja fara til Íslands til að fá annað álit lækna þar og frekari meðhöndlun.

„Svo fréttum við í gegnum íslenska fjölmiðla að Kári hefði alls ekki farið til Íslands, heldur til Grosswallstadt þar sem íslenska landsliðið kom saman til að undirbúa sig. Leikmaðurinn sagði okkur aldrei frá því, enda hefðum við gripið umsvifalaust í taumana."

Seipp segir að það sé enginn vafi á því að tengsl félagsins við Kára séu nú endanlega rofin. „Leikmaðurinn sjálfur ber einn ábyrgð á því," sagði hann og hélt áfram: „Að fara of snemma af stað hefði getað haft lífshættulegar afleiðingar í för með sér. Það er mjög sorglegt að Kári hafi ekki farið eftir fyrirmælum reyndra lækna. Ég fæ ekki skilið hvers vegna hann setti atvinnu og jafnvel líf sitt í hættu þegar hann er með konu og tvö ung börn heima hjá sér."

Kári vildi litlu svara um allar þær staðhæfingar sem Seipp lagði fram í yfirlýsingunni. „Ég vísa bara í mína eigin yfirlýsingu sem birtist fyrir helgi. Þar koma fram þær staðreyndir sem urðu til þess að ég spilaði leikinn."

Kári veit ekki hvort hann mætir til vinnu í dag eða hvernig næstu dagar munu þróast. „Þetta er allt óljóst eins og málin standa nú," segir Kári.

Sportið á Vísi er komið á Facebook.


Tengdar fréttir

Fyrirliði Wetzlar orðlaus

Michael Müller, fyrirliði Wetzlar, lýsir mikilli furðu yfir þeirri ákvörðun Kára Kristjáns Kristjánssonar að spila með íslenska landsliðinu gegn Slóveníu í fyrradag.

Aron: Óþolandi vinnubrögð hjá Wetzlar

Vísir fylgdist með blaðamannafundi HSÍ í beinni textalýsingu. Tilefnið var leikur Íslands og Slóveníu í Laugardalshöllinni á sunnudag.

Datt næstum því úr sófanum þegar ég sá Kára spila

Wetzlar hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við íslenska landsliðslínumanninn Kára Kristjánsson eftir að Kári lék með íslenska landsliðinu í Slóveníu í gær. Félagið vissi ekki betur en að Kári væri í veikindaleyfi heima á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu HSG Wetzlar.

Lygi en ekki misskilningur hjá Kára

"Hvers vegna giftur tveggja barna faðir fórnar atvinnu sinni og jafnvel lífi til þess að spila landsleik finnst mér óskiljanlegt," segir Björn Seipp framkvæmdarstjóri þýska handknattleiksfélagsins Wetzlar.

Kári: Ég fékk skýrt já

Kári Kristján Kristjánsson segist hafa fengið skýr svör frá tveimur læknum hjá Wetzlar um að hann mætti spila með íslenska landsliðinu í Slóveníu.

HSÍ vissi ekki að Kári væri skráður á sjúkralista

Handknattleikssamband Íslands og Kári Kristján Kristjánsson sendu nú síðdegis frá sér yfirlýsingu vegna máls Kára. Hann var rekinn frá félagi sínu, Wetzlar, fyrir að hafa spilað landsleikinn gegn Slóveníu síðastliðinn miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×