Körfubolti

Dominos-deild karla rúllar af stað

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dominos-deild karla fer aftur af stað í kvöld með þremur leikjum en KR-ingum er spáð Íslandsmeistaratitlinum af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum félaganna fyrir tímabilið. Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, Grindavík, er aðeins spáð fimmta sætinu í deildinni.

Stjarnan hafnar í sjötta sæti deildarinnar ef marka má spána. Grindavík og Stjarnan mættust í fimm leikja einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við erum bara spenntir þessu tímabili,“ segir Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.

KR-ingar hafa styrkt hópinn mikið fyrir komandi átök en þeir Pavel Ermolinskij, Darri Hilmarsson og Magni Hafsteinsson verða allir í eldlínunni með KR í vetur.

„Við náðum okkur aldrei almennilega á strik á síðasta tímabili og erum staðráðnir í því að gera betur að þessu sinni.“

KR-ingar mæta Grindvíkingum í fyrstu umferð í Röstinni í kvöld.

„Við lukum keppni gegn Grindavík á síðasta tímabili og við fáum alvöru próf strax í fyrsta leik. Þessi spá er í raun mikið í takt við okkar væntingar. Það er hluti af þessu að fá pressu á sig sem KR-ingur og við ætlum okkur alla leið í vetur.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Finn hér að ofan.

Stjarnan hafnar í sjötta sæti deildarinnar ef marka má spána en Grindavík og Stjarnan mættust í fimm leikja einvígi um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili.

„Þessi spá er svona nokkurn veginn í takt við það sem maður hafði hugsað sér,“ segir Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Við hefðum alveg verið til í það að vera komnir aðeins lengra með okkar leik á þessum tímapunkti. Leikmenn liðsins hafa verið að ganga í gegnum þó nokkur meiðsli á undirbúningstímabilinu. Við ætum okkur samt sem áður að vera klárir í fyrsta þegar Keflvíkingar koma í heimsókn.“

Hægt að sjá viðtalið við Teit með því að ýta hér.

Viðureignir Stjörnunnar og Keflavíkur hafa verið magnaðar síðustu ár og ávallt barist til síðasta blóðdropa.

KFÍ og Valsmenn falla í 1. deild í vor samkvæmt spánni en nýliðar Haukar komast hinsvegar í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×