Sport

Helgi Evrópumeistari í spjótkasti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helgi Sveinsson í sigurkastinu í dag.
Helgi Sveinsson í sigurkastinu í dag. mynd/ífsport.is
Helgi Sveinsson varð í dag Evrópumeistari í spjótkasti í flokki T42 á EM fatlaðra sem haldið er í Swansea.

Helgi kastaði 50,74 metra í síðustu tilraun, en fyrsta kastið upp á 50,06 hefði dugað honum til sigurs. Kastserían var þannig: 50,04 m, 46,23 m, ógilt, 49,39 m, 48,87 m og 50,74 metrar.

Norðmaðurinn Runar Steinstad var sá eini sem veitti Helga alvöru keppni eins og vitað var fyrir mótið. Hann kastaði lengst 47,18 metra í annarri tilraun. Búlgarinn DechkoOvcharov varð þriðji með kast upp á 41,82 metra.

Með sigrinum í dag bætti Helgi öðrum risatitli í safnið, en hann varð heimsmeistari í Lyon í Frakklandi fyrir ári síðan. Þá hafnaði hann í fimmta sæti á Ólympíumótinu í London.

Helgi var rúmum metra frá Íslandsmeti sínu í dag þrátt fyrir sigurinn, en hann kastaði 51,83 metra í Sviss fyrr í sumar sem er Íslandsmetið hans.

Glæsilegur árangur hjá Helga Sveinssyni sem er nú ríkjandi heims- og Evrópumeistari í flokki T42.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×