Handbolti

Þórir setur pressuna yfir á dönsku stelpurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson fagnar með sínum stelpum.
Þórir Hergeirsson fagnar með sínum stelpum. Vísir/Getty
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, er á leiðinni með norsku stelpurnar á enn eitt stórmótið en framundan er Evrópumeistaramótið í Ungverjalandi og Króatíu. Þórir er kominn í smá sálfræðistríð við danska landsliðsþjálfaranna fyrir mótið.

Noregur tapaði 24-21 á móti Danmörku í æfingamóti í Noregi í gær og íslenski þjálfarinn talaði um það eftir leikinn að danska landsliðið væri það sigurstranglegasta á mótinu.

Norska kvennalandsliðið varð í öðru sæti á EM í Serbíu 2012 en hafði unnið gullið fjögur Evrópumót þar á undan. Dönsku stelpurnar urðu síðast Evrópumeistarar árið 2002.

„Danska landsliðið er það lið í dag sem sigurstranglegast á EM. Liðið er að spila mjög vel," sagði Þórir í viðtali við Dagblaðið eftir leikinn en hann hefur grannskoðað öll liðin í undirbúningi sínu fyrir mótið.

Jan Pytlick, þjálfari danska landsliðsins, var nú ekkert alltof sáttur við að Þórir væri að setja pressuna yfir á sínar stelpur.

„Þetta var bara æfingaleikur. Við eigum eftir að mætast á EM þá eiga bæði lið helmingslíkur á sigri. Það er hinsvegar ljóst að það er gott fyrir sjálfstraustið að vinna norska liðið í Noregi," sagði Jan Pytlick við Dagblaðið í Noregi.

Norðmenn lentu í fimmta sæti á HM í Serbíu fyrir ári síðan en dönsku stelpurnar tóku þá bronsið.

Danska landsliðið hefur nú unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum á móti Noregi. „Við erum mjög ánægð með það og þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur. Norska landsliðið er hinsvegar eitt af þeim sem getur unnið verðlaun á EM," sagði Pytlick sem telur sig ekki vera með betra lið en Þórir.

„Ég er ekki með betra lið. Noregur er með mjög sterkt lið og það var augljóst að sjá hversu endurkoma Heidi Löke styrkir liðið. Noregur verður með frábært lið á EM," sagði Pytlick.

Það er stutt í næsta leik liðanna því þau eru saman í riðli og mætast næst 11. desember næstkomandi eða í lokaleik riðlakeppninnar. Sálfræðistríð þjálfaranna verður örugglega í fullum gangi þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×