Handbolti

Duvnjak bjargvættur Alfreðs og lærisveina í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason lenti í miklum spennuleik í kvöld.
Alfreð Gíslason lenti í miklum spennuleik í kvöld. Vísir/Getty
Króatíinn Domagoj Duvnjak var hetja Kiel í kvöld þegar liðið komst í hann krappann á móti TuS N-Lübbecke í sextán liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar.

Alfreð Gíslason og Geir Sveinsson komu báðir liðum sínum áfram í átta liða úrslitin í kvöld eftir mikla spennuleiki.

Kiel var eitt af þremur Íslendingaliðum sem komust áfram í átta liða úrslitin en það gerðu einnig Gummersbach og SC Magdeburg.

Kiel vann TuS N-Lübbecke 30-29 en sigurmark Domagoj Duvnjak kom 24 sekúndum fyrir leikslok. Aron Pálmarsson lék ekki með liði Kiel í kvöld.

Kiel var 27-25 yfir í leiknum en þá komu þrjú mörk í röð hjá TuS N-Lübbecke og staðan var allt í einu orðin 28-27 fyrir gestina.

TuS N-Lübbecke var 29-28 yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en Domagoj Duvnjak skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði Kiel-liðinu sigur.   

Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með 9 mörk en umræddur Domagoj Duvnjak skoraði sjö mörk og Dominik Klein var með fimm mörk.

Geir Sveinsson stýrði SC Magdeburg til 28-27 sigurs á ThSV Eisenach í Íslendingaslag. Jure Natek skoraði sigurmarkið einni og hálfri mínútu fyrir leikslok en Hannes Jón Jónsson tapaði boltanum í lokasókn Eisenach.

Bjarki Már Elísson og Hannes Jón Jónsson voru markahæstir hjá Eisenach með fimm mörk hvor. Andreas Rojewski var markahæstur hjá Magdeburg með sjö mörk.

Hin liðin sem eru komin áfram í átta liða úrslitin eru VfL Gummersbach, Göppingen, Flensburg-Handewitt og SC DHfK Leipzig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×