Handbolti

Þórir og norsku stelpurnar öruggar í undanúrslitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mork.
Nora Mork. Vísir/AFP
Sigurganga Þóris Hergeirssonar og norska kvennalandsliðsins í handbolta á EM hélt áfram í kvöld þegar liðið vann tveggja marka endurkomusigur, 26-24, á  Póllandi í öðrum leik sínum í milliriðli á EM í Ungverjalandi og Króatíu.

Með þessum sigri eru norsku stelpurnar búnar að tryggja sér sæti í undanúrslitum þrátt fyrir að enn sé ein umferð eftir í milliriðlinun.

Norska liðið var ekki búið að stíga feilspor á mótinu en norsku stelpurnar lentu samt í talsverðum erfiðleikum með lið sem var enn án stiga í milliriðlinum.

Frábær seinni hálfleikur og frábær leikur Noru Mörk lagði hinsvegar grunninn að sigrinum. Mörk skoraði ellefu mörk í leiknum þar af átta þeirra í seinni hálfleiknum sem Noregur vann 15-9.

Pólska liðið skoraði fyrsta markið í leiknum og tók strax frumkvæðið. Pólsku stelpurnar voru komnar fimm mörkum yfir, 11-6, eftir átján mínútur og þær voru síðan fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11. Norska liðið var með jafnmarga tapaða bolta (11) og mörk í fyrri hálfleiknum og markverðir liðsins vörðu aðeins 4 skot (af 19, 21 prósent).

Nora Mörk skoraði fjögur fyrstu mörk Noregs í seinni hálfleiknum og jafnframt sex af átta mörkum liðsins á fyrstu ellefu mínútunum í seinni hálfleiknum en á sama tíma breytti norska liðið stöðunni úr 15-11 fyrir Pólland í 19-18 fyrir Noreg.

Norska liðið náði mest fjögurra marka forskoti í seinni hálfleiknum en pólska stelpurnar löguðu stöðuna með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×