Handbolti

Rosalegur leikur hjá Þóri og stelpunum í kvöld | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku landsliðskonurnar Ida Alstad og Heidi Löke.
Norsku landsliðskonurnar Ida Alstad og Heidi Löke. Vísir/AP
Noregur og Danmörk mætast í kvöld í lokaleik B-riðils á Evrópumóti kvenna í handbolta en mótið fer fram í Króatíu og Ungverjalandi þessa dagana. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir Þóri Hergeirsson og stelpurnar hans í norska landsliðinu.

Leikurinn í kvöld er eins stór og þeir gerast í riðlakeppni á stórmóti en þarna mætast tvö sigursælustu liðin í sögu keppninnar í úrslitaleik um sigurinn í riðlinum og mikilvæg stig inn í milliriðil.

Norska liðið er með fullt hús eftir tvo örugga sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum og er komið áfram í milliriðil alveg eins og dönsku stelpurnar. Það þýðir að leikur liðanna í kvöld er í raun fyrsti leikur í milliriðlinum því liðin munu taka með sér stigin sem þau fá í þessum leik.

Dönsku stelpurnar unnu brons á síðasta stórmóti, HM í Serbíu í fyrra, en þar urðu Norðmenn í fimmta sæti. Danska liðið gerði óvænt jafntefli á móti Rúmeníu í síðasta leik og fer því bara með eitt stig inn í milliriðilinn takist liðinu ekki að vinna Noreg í kvöld.

Þjálfarar liðanna, Þórir Hergeirsson hjá Noregi og Jan Pytlick hafa báðir verið lengi með liðin og þekkjast orðið mjög vel. Þórir var að stríða Pytlick í aðdraganda leiksins með því að tala alltaf um hversu sigurstranglegt danska liðið er á EM en Pytlick hefur verið duglegur í gegnum tíðina að setja pressuna á Þóri og stelpurnar hans.

Leikur Noregs og Danmerkur í Fönix-höllinni í Debrecen hefst klukkan 19.30 í kvöld. Það er hægt að horfa á hann á sjónvarpsstöð evrópska handboltasambandsins. Hér fyrir neðan má sjá nokkur myndbönd frá Youtube-síðu Evrópumótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×