Handbolti

„Hef vandræðalega gaman af flugeldum“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson var í viðtali við Bítið í Bylgjunni í morgun og ræddi þar um lífið í Barcelona þar sem hann leikur með handboltaliði þess þekkta íþróttafélags.

Hann segir að þó svo að fótboltaliðið sé langsamlega stærsti hluti félagsins sé afar vel að öllu staðið sem komið að handboltaliðinu.

„Öll ferðalög eru afar vel skipulögð og allt í kringum það. Það eru ákveðin viðmið hjá félaginu og staðlaðar vinnureglur sem eiga við öll lið,“ sagði Guðjón Valur en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

Dóttir Guðjóns hitti fótboltahetjuna Lionel Messi en hann bjó þá í nágrenni við Guðjón Val á meðan að vigerðir stóðu yfir á húsnæði hans.

„Önnur dóttir mín æfir fótbolta með Barcelona og ég fer þrisvar í viku á æfingasvæðið til að fylgjast með. Þetta er aðeins stærra en hjá Gróttu í gamla daga - ég held að þeir séu með tíu æfingavelli eða eitthvað slíkt.“

Guðjón Valur ræddi einnig um styrkleika spænsku deildarinnar og íslenska landsliðið sem hefur æfingar á morgun fyrir HM í Katar. Þá var hann einnig spurður í tilefni áramótanna hvort hann hefði gaman að flugeldum.

„Já, ég hef ofsalega gaman að þeim - eiginlega vandræðalega mikið. Ég er samt enginn öfgamaður en hef gaman að því að standa úti á gamlárskvöld og horfa á fallegar rakettur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×