Handbolti

Kiel jók forskotið á toppnum | Átta sigrar í röð hjá Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir og félögum gengur allt í haginn.
Geir og félögum gengur allt í haginn. vísir/getty
Kiel náði fjögurra stiga forskoti á Rhein-Neckar Löwen með sjö marka sigri, 32-25, á Wetzlar á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Rhein-Neckar Löwen getur minnkað forskot Kiel niður í tvö stig með sigri á Hamburg á morgun, en Ljónin eiga auk þess einn leik inni á Kiel. Hann verður þó ekki spilaður fyrr en eftir hléið sem verður gert á deildinni vegna HM í Katar.

Domagoj Duvnjak, Niclas Ekberg og Rune Dahmke skoruðu sjö mörk hvor fyrir Kiel í dag, en sá síðastnefndi fékk tækifæri í vinstra horninu í fjarveru Dominiks Klein. Aron Pálmarsson komst ekki á blað hjá Kiel.

Christian Rompf var markahæstur í liði Wetzlar með sex mörk.

Ófarir Dags Sigurðssonar og félaga hans í Füchse Berlin halda áfram, en Refirnir töpuðu fyrir Gummersbach á útivelli, 27-26.

Berlínarrefirnir voru fimm mörkum undir þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum, en þeir voru nálægt því að tryggja sér stig með góðum endaspretti. Það tókst hins vegar ekki og fimmta tapið í síðustu sex leikjum því staðreynd.

Austurríski hornamaðurinn Raul Santos var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Gummersbach með níu mörk. Christoph Schindler kom næstur með sjö mörk. Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað.

Gamla brýnið Iker Romero skoraði mest í liði Füchse Berlin eða sjö mörk.

Það gengur öllu betur hjá Geir Sveinssyni og lærisveinum hans í Magdeburg sem unnu sinn áttunda sigur í röð þegar þeir sóttu Göppingen heim. Lokatölur 33-36, Magdeburg í vil.

Robert Weber var markahæstur í liði Magdeburg með átta mörk, en Michael Kraus skoraði mest fyrir Göppingen, eða 12 mörk.

Arnór Þór Gunnarsson var í miklum ham þegar Bergischer vann mikilvægan sigur á Erlangen í botnbaráttunni, 32-27.

Arnór skoraði alls níu mörk og var markahæstur í liði Bergischer sem vann sinn annan sigur í síðustu þremur leikjum. Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki liðsins og átti góðan leik.

Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark fyrir Erlangen sem er í fallsæti.

Þá vann Lemgo fimm marka sigur á Melsungen á heimavelli, 34-29.

Úrslit dagsins:

Kiel 32-25 Wetzlar

Bergischer 32-27 Erlangen

Gummersbach 27-26, Füchse Berlin

Lemgo 34-29 Melsungen

Göppingen 33-36 Magdeburg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×