Handbolti

Markasúpa Bjarka Más | 10,7 mörk í síðustu sjö leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki er á sínu öðru tímabili hjá Eisenach.
Bjarki er á sínu öðru tímabili hjá Eisenach. vísir/aðsend
Það er óhætt að segja að Bjarki Már Elísson hafi farið á kostum með þýska handboltaliðinu ThSV Eisenach að undanförnu, en þessi 24 ára gamli hornamaður er á meðal markahæstu leikmanna næstefstu deildar þar í landi.

Bjarki, sem varð Íslandsmeistari með HK vorið 2012, kom til Eisenach í fyrra og skoraði 129 mörk í 34 leikjum (3,8 mörk að meðaltali í leik) á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

Bjarki var í 30. sæti yfir markahæstu leikmenn efstu deildar í fyrra, en hann var jafnframt markahæsti Íslendingurinn í Bundesligunni á síðasta tímabili. Mörkin hans Bjarka dugðu þó skammt því Eisenach féll úr deild þeirra bestu síðasta vor.

Eisenach hefur þokast upp töfluna á undanförnum vikum.mynd/heimasíða eisenach
Eisenach gekk brösuglega framan af tímabilinu og eftir átta leiki var Aðalsteini Eyjólfsson, þjálfara liðsins, sagt upp störfum en hann hafði stýrt Eisenach í fjögur og hálft ár. Við starfi hans tók Serbinn Velimir Petkovic sem hafði áður þjálfað Wetzlar og Göppingen í þýsku Bundesligunni.

Bjarki var rólegur í fyrstu átta umferðunum þar sem hann skoraði 23 mörk, eða 2,9 mörk að meðaltali í leik. En eftir þjálfaraskiptin fór hann í gang svo um munaði.

Bjarki skoraði átta mörk í fyrsta leik Eisenach undir stjórn Petkovic, í 38-30 sigri á Henstedt-Ulzburg. Í næstu þremur leikjum skoraði Bjarki samtals 15 mörk, áður en hann skoraði 10 mörk í fimm marka sigri Eisenach á Aue, öðru Íslendingaliði, 15. nóvember. Síðan þá hefur hornamaðurinn knái ekki litið um öxl.

Bjarki er með 10,7 mörk að meðaltali í síðustu sjö leikjum Eisenach í deildinni.mynd/hsí
Bjarki rauf tíu marka múrinn í næstu fimm leikjum Eisenach og hafði því skorað tíu mörk eða fleiri í sex leikjum í röð. Áður en að leiknum gegn Aue kom hafði hann aðeins átt einn 10-marka leik, í 26-26 jafntefli gegn Neuhausen 4. október.

Þessari ótrúlegu tíu marka hrinu Bjarka lauk á laugardaginn þegar hann skoraði "aðeins" níu mörk í öruggum sigri á Saarlouis en það var fimmti sigurleikur Eisenach í röð, en liðið er nú í 7. sæti B-deildarinnar.

Í síðustu sjö leikjum Eisenach hefur Bjarki skorað 75 mörk, eða 10,7 mörk að meðaltali í leik. Í heildina er hann kominn með 121 mark í B-deildinni í 19 leikjum, eða 6,4 mörk að meðaltali í leik. Bjarki er í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar, en hann er 11 mörkum á eftir efsta manni á markalistanum, Philipp Weber sem spilar með toppliði Leipzig.

Eisenach á eftir að leika tvo leiki áður en hlé verður gert á deildakeppninni vegna HM í Katar. Á öðrum degi jóla tekur liðið á móti Empor Rostock og tveimur dögum síðar sækja Bjarki og félagar Nordhorn-Lingen heim.

Síðustu sjö leikir Bjarka Más í B-deildinni:

15. nóv: 33-28 sigur á Aue - 10 mörk

22. nóv: 36-29 tap fyrir Coburg - 10 mörk

29. nóv: 38-27 sigur á Emsdetten - 11 mörk

6. des: 26-30 sigur á Bad Schwartau - 11 mörk

10. des: 31-26 sigur á Bayer Dormagen - 11 mörk

14. des: 21-30 sigur á Eintracht Baunatal - 13 mörk

20. des: 39-30 sigur á Saarlouis - 9 mörk

Samtals: 75 mörk í sjö leikjum (10,7 að meðaltali í leik)


Tengdar fréttir

Bjarki Már með 11 mörk

Bjarki Már Elísson fór á kostum þegar Eisenach lagði Bad Schwartau 30-26 í þýsku B-deildinni í handbolta í kvöld á heimavelli sínum.

Bjarki fór illa með Emsdetten

Bjarki Már Elísson fór á kostum þegar Eisenach vann 11 marka sigur, 38-27, á Emsdetten í þýsku B-deildinni í handbolta í kvöld.

Hannes og Bjarki fá nýjan þjálfara

Íslendingaliðið Eisenach hefur fundið þjálfara, Velimir Petkovic, sem þjálfaði áður Wetzlar og Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni.

Bjarki Már markahæstur í sigri

Fjöldinn allur af íslenskum mörkum litu dagsins ljós í þýsku B-deildinni í handbolta, en Bjarki Már Elísson var markahæstur Íslendinga með átta mörk.

Aðalsteini sagt upp

Aðalsteinn Eyjólfsson fékk stígvélið frá forráðamönnum Eisenach í gærkvöldi samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þessir berjast um farseðlana til Katar

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, tilkynnti í dag hvaða 28 leikmenn koma til greina í hópinn fyrir HM í Katar.

Aðalsteinn: Enginn átti von á þessu

Aðalsteinn Eyjólfsson segir að liðinu hafi vantað sjálfstraust þetta tímabilið eftir erfitt gengi í þýsku úrvalsdeildinni í fyrra, en Aðalsteini var sagt upp störfum hjá Eisenach í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×