Körfubolti

Tók fyrir öll liðin í Dominos-deildinni og leikgreindi þau í ræmur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Ernir
Hörður Tulinius, mikill áhugamaður um körfuboltatölfræði og meðlimur í ritstjórn körfuboltavefsíðunnar karfan.is, eyddi jólafríinu sínu í að reikna út allskonar tölfræði um liðin tólf sem skipa Dominos-deild karla í körfubolta.

Hörður birti afraksturinn á karfan.is þar sem hægt er að nálgast þessa tölfræði-leikgreiningu á pdf-formi en hvert lið fær sér síðu hjá Herði þar sem hann er ekki aðeins með hráar tölur heldur einnig stutta grein um hvað tölurnar þýða.  

Hörður vinnur með tölfræðina sem KKÍ lætur taka saman á leikjum Dominos-deildarinnar og reiknar út úr henni allskonar jöfnur og tölur sem sýna betur kosti og galla liðanna tólf í vörn sem sókn.

Hörður finnur meðal annars út hvaða lið eru að spila hægasta og hraðasta boltann í deildinni og hvaða lið eru ofar eða neðar í tölfræðinni en þau eru í sjálfri stigatöflunni.

„KR-ingar tróna á toppi deildarinnar, ekki bara á töflunni heldur einni í öllum mögulegum tölfræðiliðum. Tindastólsmenn koma skemmtilega á óvart en Grindvíkingar og ÍR-ingar hafa verið óheppnir. Hvort sem þú ert þjálfari, leikmaður, blaðamaður eða fylgist bara með Dominosdeildinni, þá ættu allir að geta fundið eitthvað gagnlegt í þessari samantekt," segir í frétt um tölfræðigreiningu Harðar á karfan.is

Hörður Tulinius er að vinna samkvæmt aðferðum þróaðrar tölfræðigreiningar sem er notuð mikið í umfjöllun um NBA deildina. Samantekt Harðar má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×