Handbolti

Íslenskir þjálfarar slást um starf Erlings

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það verður væntanlega Íslendingur sem tekur við af Erlingi hjá West Wien.
Það verður væntanlega Íslendingur sem tekur við af Erlingi hjá West Wien. vísir/daníel
Konrad Wilczynski hefur starfað með íslenskum þjálfurum meira og minna undanfarin tólf ár og því þarf það ekki að koma á óvart að hann ætli sér að ráða Íslending til að þjálfa austurríska liðið SG Handball West Wien þegar Erlingur Richardsson lætur af störfum í sumar. Wilczynski sagðist í samtali við Fréttablaðið vera gáttaður á því hversu margir góðir þjálfarar hafa komið frá Íslandi.

„Okkur í Austurríki hefur ekki tekist að búa til svo góða þjálfara,“ segir hann en Wilczynski er í dag framkvæmdastjóri West Wien, eftir að hafa lagt skóna á hilluna í sumar.

„Ég hef sjálfur langa og góða reynslu af íslenskum þjálfurum og mér líkar við viðhorf þeirra. Þeir virðast geta starfað hvar sem er og með hverjum sem er. Við erum ekki komnir langt á veg í ráðningarferlinu en höfum þó fengið um 50 umsóknir inn á borð til okkar sem við munum skoða betur í janúar,“ segir hann.

Spilandi þjálfari kemur til greina

Wilczynski segir þó að hann hafi einsett sér að ráða íslenskan þjálfara. „Við munum líta fyrst til Íslands áður en við skoðum aðra þjálfara. Ég þekki marga íslenska leikmenn og þjálfara og hef rætt við þá um marga þjálfara. Ég tel að ég sé með um tíu nöfn íslenskra þjálfara sem koma mögulega til greina í starfið.“

Hann segir einnig að spilandi þjálfarar komi til greina, þó svo að honum hugnist það síður. „Ég útiloka ekki neitt en þeir eru afar fáir sem geta sinnt báðu. Dagur gerði það vel [hjá Bregenz] og ef við finnum einhvern sem kemur til greina munum við skoða það eins og allt annað.“

Erlingur hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað hjá West Wien en það er hans fyrsta þjálfarastarf utan Íslands. Wilczynski telur að hann passi vel við þjálfarastarfið hjá Füchse Berlin.

„Ég hef fulla trú á því. Ég studdi hann heilshugar í öllu ferlinu og ræddi margoft við Bob Hanning [framkvæmdastjóra Füchse Berlin] um Erling. Félögin eru lík að því leyti að bæði vilja huga vel að ungum leikmönnum en vera í toppbaráttu í sínum deildum. Það er þó vitaskuld þannig að það er allt miklu stærra í Berlín og því verður þetta mikil áskorun fyrir hann. Ég hef þó engar áhyggjur af öðru en að Erlingi farist starfið vel úr hendi.“

Alls verða fjórir íslenskir þjálfarar starfandi á HM í Katar í næsta mánuði en auk Arons Kristjánssonar, þjálfara íslenska liðsins, verða Dagur Sigurðsson (Þýskaland), Guðmundur Guðmundsson (Danmörk) og Patrekur Jóhannesson (Austurríki) í eldlínunni með sín lið.

Árangurinn engin tilviljun

„Þetta er afar spennandi og athyglisvert að íslenskir þjálfarar hafi náð jafn langt á alþjóðlegum vettvangi. Það sýnir hversu mikils virt það er á Íslandi að vera handboltaþjálfari og hversu margir hafa einsett sér að ná langt og tekið þjálfaraferilinn föstum tökum. Þeir hafa lagt virkilega mikið á sig til að ná svona langt og því er þetta engin tilviljun.“

Hefur starfað í tólf ár með íslenskum þjálfurum

Konrad Wilczynski er einn farsælasti handboltamaður sem Austurríki hefur alið en þessi vinstri hornamaður spilaði lengst af með Bregenz í föðurlandinu og svo Füchse Berlin í Þýskalandi.

Hann hóf ferilinn með uppeldisfélaginu West Wien, þar sem hann starfar nú sem framkvæmdastjóri eftir að hafa leikið síðustu ár leikmannaferilsins í austurrísku höfuðborginni.

Allt frá 2002 hefur Wilczynski starfað með þremur íslenskum þjálfurum. Fyrstu fjögur árin hjá Bregenz þar sem Dagur Sigurðsson var spilandi þjálfari og svo áfram frá 2008 til 2010 eftir að Dagur tók við austurríska landsliðinu. Á þeim árum var Dagur einnig ráðinn þjálfari Füchse Berlin en þangað fór Wilczynski árið 2006 og spilaði í fimm ár við góðan orðstír. Meðal annars varð hann markakóngur þýsku deildarinnar 2007-8.

Stuttu eftir að Wilczynski sneri aftur til Vínarborgar árið 2011 var Patrekur Jóhannesson ráðinn þjálfari austurríska landsliðsins og lék Wilczynski með því þar til að hann lagði landsliðsskóna á hilluna eftir EM í janúar á þessu ári.

Wilczynski átti svo stóran þátt í því að ráða Erling Richardsson til West Wien í fyrra og hefur í huga að hefja samstarf við enn einn íslenska þjálfarann í sumar, þegar Erlingur heldur til Füchse Berlin í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×