Handbolti

Aron Kristjáns að missa Kim Andersson til Frakklands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kim Andersson.
Kim Andersson. Vísir/EPA
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta og danska liðsins KIF Kolding, gæti verið að missa algjöran lykilmann fyrir lokaspettinn á tímabilinu.

Sænska stórskyttan Kim Andersson er samkvæmt fréttum handboltavefsíðunnar handball-plant.com á leiðinni í læknisskoðun hjá franska stórliðinu Paris Saint-Germain.  Sænskir fréttamiðlar hafa einnig sagt frá þessu í kvöld.

Ef af verður þá er Kim Andersson orðinn liðsfélagi Róberts Gunnarssonar hjá franska liðinu en í hinni skyttunni spilar danska stórskyttan Mikkel Hansen. Báðir eru þeir duglegir að finna línuna sem ættu að vera mjög góðar fréttir fyrir íslenska landsliðslínumanninn.

Kim Andersson er 33 ára gamall og missti af leikjum á HM vegna meiðsla. Hann á því eftir að standast umrædda læknisskoðun. Króatinn Marko Kopljar spilar nú í þessari stöðu hjá PSG en samningur hans við franska liðið rennur út í sumar.

Kim Andersson gat ekki spilað með sænska landsliðinu vegna axlarmeiðsla þegar liðið tapaði á móti Pólverjum í sextán liða úrslitum á HM í Katar. Þegar hann er í stuði þá ráða ekki margir við hann.

Kim Andersson hefur spilað með KIF Kolding frá 2012 en þar áður lék hann með þýska liðinu THW Kiel í sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×