Körfubolti

Atkinson slapp með skrekkinn og fær að spila bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeremy Atkinson.
Jeremy Atkinson.
Jeremy Atkinson verður með Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum á móti KR á laugardaginn eftir að hann fékk aðeins áminningu frá aganefnd KKÍ.

Jeremy Atkinson fékk tvær tæknivillur í sigri á Skallagrím fyrir viku síðan en nokkrum dögum áður fékk hann tæknivillu og þar með sína fimmtu villu eftir að hafa skorað körfu og fengið víti að auki.

Hefði aganefnd KKÍ dæmt Atkinson í leikbann þá hefði hann ekki mátt spila bikarúrslitaleikinn á laugardaginn.

„Með vísan til ákvæðis a. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Jeremy Martez Atkinson, leikmaður Stjörnunnar, sæta áminningu vegna háttsemi sinnar í leik Stjörnunnar og Skallagríms í Dominosdeild Mfl. flokki karla, sem leikinn var 12. febrúar 2015," segir í umsögn aganefndarinnar um kæruna á hendur Atkinson.

Jeremy Atkinson átti flottan leik í sigri á Fjölni í síðasta leik en hann var þá með 26 stig, 16 fráköst og enga tæknivillu.

Jeremy Atkinson lék sinn fyrsta leik á móti Grindavík 22. janúar síðastliðinn en hann er með 17,4 stig og 10,0 fráköst að meðaltali í fimm deildarleikjum með Garðabæjarliðinu.

Úrslitaleikur Poweradebikars karla er einn af ellefu bikarúrslitaleikjum körfuboltans í Laugardalshöllinni um helgina en leikur KR og Stjörnunnar hefst klukkan 16.00 á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×