Handbolti

Geir vann Evrópumeistarana og Magdeburg í þriðja sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir á hliðarlínunni í kvöld.
Geir á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Getty
Lærisveinar Geirs Sveinssonar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Flensburg í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar í kvöld, 30-26, á útivelli.

Magdeburg tók forystuna undir lok fyrri hálfleiks og lét hana aldrei af hendi eftir það. Með sigrinum komst Magdeburg upp fyrir Flensburg, sem vann Meistaradeild Evrópu á síðasta ári, og í þriðja sæti deildarinnar.

Þetta var tíundi sigur Magdeburg í röð í deildinni og er liðið nú þremur stigum á eftir toppliðum Kiel og Rhein-Neckar Löwen, sem bæði eiga leik til góða. Austurríkismaðurinn Robert Weber átti stórleik fyrir Madgeburg og skoraði tíu mörk, auk þess sem að danski landsliðsmaðurinn Jannick Green stóð sig vel í markinu.

Fjórtán umferðir eru eftir af tímabilinu í Þýskalandi en ef Geir tekst að halda þriðja sætinu fer hann með lið sitt í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili.

Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, vann í kvöld góðan sigur á Hannover-Burgdorf á útivelli, 31-26. Füchse Berlin er nú komið upp í sjöunda sæti deildarinnar en liðið hefur unnið báða leiki sína eftir HM-fríið.

Rúnar Kárason fór á kostum með Hannover-Burgdorf og skoraði ellefu mörk fyrir lið sitt í kvöld, þar af þrjú af vítalínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×