Handbolti

Íslensku ljónin fóru ekki í gang fyrr en í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Vísir/Eva Björk
Rhein-Neckar Löwen lenti í smá vandræðum með Björgvins-laust lið Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en vann á endanum sex marka sigur, 30-24.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar unnu á sama tíma öruggan níu marka heimasigur á Minden, 32-23.

Löwen-liðið er gríðarlega öflugt á heimavelli þar sem liðið hefur unnið fjóra leiki í röð og níu af tíu leikjum sínum í þýsku deildinni í vetur.

Bergischer HC hefur aftur á móti tapað átta útileikjum í röð í deildinni og aðeins náð í eitt stig af tuttugu mögulegum á útivelli í vetur.  

Íslensku ljónin fóru ekki í gang fyrr en í seinni hálfleik. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir og Stefán Rafn Sigurmannsson var með þrjú mörk. Öll mörkin þeirra sex komu í seinni hálfleiknum.

Arnór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer HC í leiknum þar af tvö þeirra í fyrri hálfleiknum.

Björgvin Páll Gústavsson meiddist á öxl í síðasta leik íslenska landsliðsins á HM í Katar og gat ekki spilað með Bergischer HC í kvöld.

Bergischer HC náði tveggja marka forskoti í fyrri hálfleiknum og var 13-12 yfir í hálfleik þrátt fyrir að danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin hafi varið tíu skot í marki Löwen í hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×