Handbolti

Strákarnir hans Alfreðs léku sér að liði Dags

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Getty
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans héldu sigurgöngu sinni áfram á heimavelli sínum í þýsku deildinni þegar liðið vann stórsigur á strákunum hans Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin.

Kiel vann leikinn á endanum með fjórtán marka mun, 32-18, og hefur þar með unnið alla þrettán heimaleiki sína í þýsku deildinni á þessu tímabili.

Kiel náði um leið tveggja stiga forskoti á Rhein-Neckar Löwen en Ljónin eiga þó leik inni á lið Alfreðs.

Aron Pálmarsson spilaði með Kiel í kvöld og var með þrjú mörk og tvær stoðsendingar á félaga sína samkvæmt opinberri tölfræði þýsku deildarinnar. Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með átta mörk.

Kiel komst í 5-1 eftir sex mínútna leik og breytti síðan stöðunni úr 7-4 í 15-4 með því að vinna ellefu mínútna kafla 8-0 og komast ellefu mörkum yfir.

Füchse Berlin náði að laga stöðuna með því að skora fimm mörk í röð og minnka muninn í sex mörk áður en Marko Vujin endaði hálfleikinn á því að koma Kiel í 16-9 með sínu fjórða marki í hálfleiknum.

Kiel var áfram mörgum skrefum á undan í seinni hálfleiknum og var aftur búið að ná ellefu marka forystu um miðjan hálfleikinn, 26-15. Kiel vann síðan leikinn á endanum með fjórtán marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×