Körfubolti

Elvar Már spilar næsta leik en líklega ekkert í úrslitakeppninni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leiknum með Njarðvík í gær.
Elvar Már Friðriksson í leiknum með Njarðvík í gær. mynd/víkurfréttir
Elvar Már Friðriksson sneri óvænt aftur í lið Njarðvíkur í gærkvöldi þegar liðið vann Stjörnuna, 101-88, í næstsíðustu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Elvar Már stundar nám við og spilar með LIU Brooklyn-háskólanum, en tímabilinu þar lauk í febrúar þegar liðið féll úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppni NEC-deildarinnar.

„Það var ekkert smá skemmtilegt að koma aftur á gamla heimavöllinn. Ég vildi bara koma og gera allt sem ég gat, gefa liðinu orku og kraft,“ sagði Elvar Már við Vísi eftir leikinn í gærkvöldi.

Hann skoraði tíu stig, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar, en Stefan Bonneau stal senunni með 41 stigi, níu stoðsendingum og átta fráköstum.

Sigurinn tryggði Njarðvík heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það er í þriðja sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir og getur með sigri í lokaumferðinni gegn Þór í Þorlákshöfn tryggt sér þriðja sætið.

„Ég tek næsta leik og svo fer ég bara aftur út,“ sagði Elvar við Vísi í gær, en það eykur líkur Njarðvíkurliðsins á sigri og þriðja sætinu.

Tapi Njarðvík aftur á móti gegn Þór og Haukar vinna Keflavík í lokaumferðinni komast Haukarnir upp fyrir Njarðvík í þriðja sætið.

Það er þó algjörlega ljóst að Njarðvík er komið í úrslitakeppnina og verður þar með heimaleikjarétt í fyrstu umferð. Elvar Már verður þó nær örugglega ekki með liðinu í úrslitakeppninni.

„Mér finnst afar ólíklegt að ég taki úrslitakeppnina. Ég þarf að klára skólann. Ég hef misst mikið úr af því að við höfum verið að ferðast mikið. Þannig að ég held að það sé mjög ólíklegt. En það yrði mjög gaman,“ sagði Elvar Már Friðriksson við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×