Handbolti

Snorri Steinn rauf 100 marka múrinn í endurkomusigri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson er búinn að skora 103 mörk í frönsku 1. deildinni.
Snorri Steinn Guðjónsson er búinn að skora 103 mörk í frönsku 1. deildinni. vísir/eva björk
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði sex mörk í 32-31 sigri Sélestad gegn Tremblay í frönsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Snorra Steins fyrir Sélestad síðan í byrjun febrúar, en hann braut þumalfingur í bikarsigri gegn Saran og hefur verið frá síðan.

Sélestad tapaði öllum fimm leikjunum sem það spilaði, fjórum í deild og einum í bikar, á meðan það var án íslenska landsliðsmannsins.

Leikurinn í kvöld var afar spenanndi, en Frédéric Beauregard tryggði heimamönnum sigurinn með marki þegar 16 sekúndur voru eftir, 32-31.

Snorri Steinn skoraði sex mörk úr átta skotum, þar af tvö úr vítaköstum, og rauf með því 100 marka múrinn. Hann er í heildina búinn að skora 103 mörk í deildinni.

Ásgeir Örn var í sigurliði.vísir/eva björk
Ásgeir Örn Hallgrímsson hafði svo betur gegn Arnóri Atlasyni í uppgjöri Íslendingaliðanna Nimes og St. Raphael, 30-28, en heimamenn voru með frumkvæðið nánast allan leikinn.

Ásgeir Örn skoraði eitt mark úr fjórum skotum fyrir Nimes og Arnór Atlason þrjú mörk úr fimm skotum fyrir St. Raphael.

St. Raphael er eftir sem áður í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar með 24 stig en Nimes er í ellefsta sæti með 15 stig. Snorri og félagar eru í 13. og næst neðsta sæti með tíu stig eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×