Handbolti

Birna Berg í viðræðum við lið í Þýskalandi og Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birna Berg í leik með Fram.
Birna Berg í leik með Fram. vísir/daníel
Handknattleikskonan Birna Berg Haraldsdóttir er í viðræðum við lið í Danmörku og Þýskalandi um að leika með liðum þar í landi á næstu leiktíð, samkvæmt öruggum heimildum Vísis.

Birna Berg samdi við sænsku meistarana í Sävehof í maí 2013, en þar lék hún í eitt og hálft ár. Þar spilaði hún vel í þeim leikjum sem hún fékk að spila, en tækifærin voru af skornum skammti.

Í janúar var hún svo lánuð til norska B-deildarliðsins Molde þar sem hún spilaði stóran þátt í að tryggja liðinu sæti í efstu deild. Einar Jónsson þjálfaði Molde, en hann kaus að halda ekki áfram að þjálfa liðið.

Vísis hefur nú samkvæmt heimildum að Birna sé í viðræðum við sterk lið, bæði í Þýskalandi og Danmörku, en ekki liggur nú fyrir hvaða lið séu í viðræðum við þessa öflugu hægri skyttu.

Birna hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu að undanförnum árum, en hún var meðal annars í landsliðshóp Íslands á HM í Brasilíu 2011, einungis átján ára gömul.  Hún er uppalin í FH, en lék aðallega með Fram í meistaraflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×