Handbolti

Ungur handboltamaður fór í hjartastopp á æfingu og lést

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Álasund er í áfalli.
Álasund er í áfalli. vísir/getty
Gríðarleg sorg ríkir í Álasundi í Noregi vegna andláts ungs drengs á æfingu með handboltaliði bæjarins.

Strákurinn ungi fór í hjartastopp og féll til jarðar. Læknir var á staðnum sem reyndi endurlífgunartilraunir og sjúkrabíll var fljótur á staðinn. Því miður dugði þetta ekki til því strákurinn lést.

„Þetta er ótrúlegur harmleikur. Ég á ekki orð. Allur minn hugur er hjá fjölskyldu og nánustu aðstandendum stráksins,“ segir Lars Johansen, þjálfari Álasunds, við Sunnmörgsposten.

Áfallið reið yfir í miðjum undirbúningi liðsins fyrir umspil í norsku C-deildinni og átti það að spila á sunnudaginn. Ekkert verður af þeim leik.

„Handboltinn gefur okkur svo margt en á þessum tíma skiptir handbolti ekki nokkru máli. Nú hugsum við bara hvert annað næstu daga. Ég veit að strákurinn hefði viljað að við myndum spila, en við sjáum bara til hvað verður. Núna skiptir leikurinn engu máli,“ segir Johansen.

Fólk í kringum félagið er í miklu áfalli eins og við má búast og var fljótt kallað á áfallahjálp fyrir þá sem þurftu.

Þjálfarinn hefur ekkert nema góða hluti um strákinn að segja: „Hann var góður drengur. Virkilega góður strákur sem hægt var að treysta á. Hann hafði vilja til að læra og var samviskusamur. Þetta er ótrúlegur harmleikur,“ segir Lars Johansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×