Handbolti

Landslið Katar fær þriggja mánaða undirbúning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Óhætt er að fullyrða að landslið Katar, undir stjórn Spánverjans Valero Rivera, fái að æfa meira en flest önnur landslið heimsins.

Rivera hefur tilkynnt að landsliðið muni koma saman þann 10. ágúst til þess að undirbúa liðið fyrir undankeppni Ólympíuleikanna í Asíu sem fer einmitt fram í Katar dagana 9.-20. nóvember.

Katar undirbjó sig svo mánuðum skipti fyrir HM í handbolta sem haldið var þar í landi í upphafi ársins og komst alla leið í úrslit þar sem liðið tapaði fyrir Frökkum. Önnur landslið fá leikmenn fáeinum vikum fyrir stórmót og í nokkra daga fyrir stök landsliðsverkefni nokkrum sinnum á ári.

„Við munum hefja stífar æfingar þann 10. ágúst og vinna til loka október. Það gefur okkur nægan tíma til að undirbúa okkur fyrir undankeppnina,“ sagði Rivera.

„Ég er þó ekki viss að við verðum með sama lið og varð í öðru sæti á HM. Það er erfitt að ná árangri með sömu leikmenn,“ sagði þjálfarinn enn fremur en lið Katar er nánast eingöngu skipað aðkomumönnum.

„Eftir sigurinn á Asíumeistaramótinu skipti ég út fimm leikmönnum og svo þremur eftir Asíuleikana. Það getur verið að ég sæki aftur nokkra leikmenn sem duttu út eftir Asíuleikana en þar með gæti ég breytt um leikskipulag fyrir undankeppni Ólympíuleikana.“

„En eitt er víst. Allir þeir leikmenn sem hafa ekki áhuga á að leggja mikið á sig komast ekki í liðið.“

Sigurvegari undankeppninnar í Asíu kemst til Ríó, sem og Suður-Ameríkumeistararnir árið 2015, Evrópumeistararnir 2016, Afríkumeistararnir 2016 ásamt heimsmeisturum Frakklands og gestgjöfum Brasilíu. Keppt verður um hin sex sætin í undankeppni sem fer fram í apríl 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×