Innlent

„Nei, virðulegi forseti, málinu er ekki lokið“

Birgir Olgeirsson skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson á þingi.
Helgi Hrafn Gunnarsson á þingi.
„Það vekur tortryggni, við megum ekki við mikið meira af henni,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, við umræður um meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneytinu. Gagnrýndi hann harðlega að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi ákveðið að afgreiða málið með þremur orðið: Málinu er lokið.

„Nei, virðulegi forseti, málinu er ekki lokið,“ sagði Helgi Hrafn og sagði of marga lausa enda standa eftir sem hann óttast að muni vera lausir það sem eftir er af stjórnmálasögu Íslands.

Brynjar Níelsson
Yrðu þá ummæli fjármálaráðherra rannsökuð?

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni, sagði nefndina ekki geta sett sig í dómarasæti í málinu og metið hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi sagt þinginu ósatt þegar hún var spurð út í lekamálið. Sagði hann ekki hægt að meta hvort hún hafi sagt satt og rétt frá út frá þeim upplýsingum sem hún bjó yfir á sínum tíma.

Hann sagði að ef fara ætti með málið lengra þyrfti að fá óháða aðila til að framkvæma rannsókn á því og það myndi setja fordæmi sem ekki sæi fyrir endann á. Hann nefndi til að mynda að fjölmargir hefðu komið að máli við hann og spurt hvort ekki ætti að rannsaka ummæli fjármálaráðherra frá síðasta kjörtímabili sem sagður er hafa greint þinginu rangt frá stöðunni í samningaviðræðum ríkisins við kröfuhafa. Hann sagði málinu hafa lokið með dómsmáli og áliti umboðsmanns Alþingis og þar við sitji.

Alþingi má ekki við meiri tortryggni

Helgi Hrafn sagði að ef það væri mat Brynjars að hefja þyrfti rannsókn vegna ósannsögli ráðherra þá yrði einfaldlega að gera það. Alþingi mætti ekki við meiri tortryggni en lekamálið hefur nú þegar skapað. Hann sagði að draga yrði lærdóm af málinu og ef því væri lokið eins og meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar heldur fram þá sé lærdómurinn af lekamálinu að þjóðinni beri að tortryggja kerfið sem hún á að treysta.

Sagði hann alvarleg mistök hafa verið gert við hvert fótmál, lekinn, innri athugun rekstrarfélags stjórnarráðsins, ósamræmi dómskjala við fullyrðingar ráðherra og samskipti ráðherra við lögreglustjóra.


Tengdar fréttir

Tony Omos og Gísli Freyr ná sáttum

Sátt náðist í máli Tony Omos gegn Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×