Handbolti

Kiel sneri dæminu við í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron kveður Kiel væntanlega með enn einum Þýskalandsmeistaratitlinum.
Aron kveður Kiel væntanlega með enn einum Þýskalandsmeistaratitlinum. vísir/getty
Kiel náði sex stiga forystu á toppi þýsku úrvaldeildarinnar í handbolta með sex marka sigri, 26-34, á Gummersbach á útivelli í kvöld.

Kiel er nú með 59 stig, sex stigum meira en Rhein-Neckar Löwen sem á þó tvo leiki til góða. Kiel á eftir að spila þrjá leiki í deildinni; gegn Minden, Hannover-Burgdorf og Lemgo.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar voru í vandræðum í fyrri hálfleik í kvöld og þá aðallega með Carsten Lichtlein, markvörð Gummersbach, sem varði eins og óður maður.

Heimamenn náðu mest fjögurra forystu í fyrri hálfleik, 12-8, en staðan að honum loknum var 15-13, Gummerbach í vil.

Heimamenn skoruðu fyrsta markið í seinni hálfleik en þá kom frábær kafli hjá Kiel sem skoraði sjö mörk gegn engu og náði fjögurra marka forskoti, 16-20.

Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Kiel hélt Gummersbach í öruggri fjarlægð og vann að lokum sex marka sigur, 26-32.

Joan Canellas var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk en Niclas Ekberg kom næstur með sex mörk. Aron Pálmarsson skoraði eitt mark.

Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað hjá Gummerbach sem er í 10. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×