Handbolti

Nær Alfreð fjórða titlinum í Köln?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Um helgina kemur í ljós hvaða lið verður Evrópumeistari í handbolta þegar úrslitahelgin, Final Four, fer fram í Köln.

Youtube-síða Meistaradeildarinnar hitar upp fyrir helgina með því að kynna þrjá af sigursælustu þjálfurum keppninnar til leiks, en þeir verða allir í eldlínunni um helgina.

Þetta eru Talant Dusjebaev, þjálfari Kielce frá Póllandi, Xavier Pascual, þjálfari Spánarmeistara Barcelona, og auðvitað Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.

Í fyrri undanúrslitaleiknum mætir Barcelona liðið Kielce, en útsending hefst á Stöð 2 Sport klukkan 13.10.

Seinni undanúrslitaleikurinn er viðureign Kiel og Veszprém frá Ungverjalandi, en útsending frá honum hefst klukkan 15.50 á Stöð 2 Sport 3.

Bæði Dusjebaev og Alfreð Gíslason hafa unnið Meistaradeildina sem þjálfarar þrisvar sinnum. Dusjebaev með Ciudad Real í öll skiptin en Alfreð með Magdeburg einu sinni og Kiel tvisvar sinnum.

Final Four-fyrirkomulagið var tekið upp 2010, en síðan þá hefur enginn unnið Meistaradeildina oftar en Alfreð.

Undir hans stjórn vann Kiel sigur á Barcelona, 36-34, árið 2010 og svo 26-21 sigur gegn Atlético Madríd árið 2012.

Xavier Pascual, þjálfari Barcelona, vann í Köln árið 2011, en undanfarin tvö ár hafa Hamburg og Flensburg staðið upp sem sigurvegarar.

Í myndbandinu hér að ofan er farið yfir feril þjálfaranna þriggja sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×