Sport

Aníta stefnir á að bæta Íslandsmetið í úrslitahlaupinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aníta Hinriksdóttir náði bestum tíma í undanrásum 800 metra hlaups kvenna á Evrópumeistaramóti 19 ára og yngri sem fram fer í Eskilstuna í Svíþjóð í gær.

Aníta á titil að verja á mótinu, en hún varð Evrópumeistari þegar mótið var haldið á Ítalíu fyrir tveimur árum.

„Ég stefndi á að koma mér í gírinn fyrir laugardaginn reyna að hlaupa afslöppuð. Mér tókst það og með það er ég ánægð,“ sagði Aníta við heimasíðu frjálsíþróttasambands Evrópu eftir hlaupið í gær.

„Mig langaði bara að finna fyrir hversu hratt ég gæti hlaupið en svo slakaði ég á. Þetta var svolítið erfitt í dag.“

Aníta segir gæðin alltaf vera að aukast á unglingamótunum og margir sterkir keppendur séu mættir til leiks.

„Það voru sterkir keppendur síðast og það eru sterkir keppendur hér núna. Ég mun reyna að ná góðum tíma og það er bara gott að vera með pressu á sér,“ sagði Evrópumeistarinn.

Aðspurð hvort hún hefur verið ánægð með árin hjá sér fram að þessu sagði Aníta: „Mér hefur gengið ágætlega. Ég var ánægð með hlaupin framan af og svo hef ég verið að æfa vel þannig ég er spennt fyrir úrslitahlaupinu.“

Stefnan er að sjálfsögðu að verja Evrópumeistaratitilinn og Íslandsmet er markmiðið. „Mig langar að bæta minn besta tíma. Ég stefni alltaf að því,“ sagði Aníta Hinriksdóttir.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×