Golf

Þórður Rafn efstur eftir fyrsta hring

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórður Rafn lék fyrsta hringinn á fimm höggum undir pari.
Þórður Rafn lék fyrsta hringinn á fimm höggum undir pari. mynd/gsí
Þórður Rafn Gissurarson, GR, lék frábært golf á fyrsta keppnisdeginum á Íslandsmótinu í golfi á Garðavelli á Akranesi í dag.

Þórður lék á 67 höggum eða fimm höggum undir pari og er með tveggja högga forskot á Axel Bóasson úr GK. Alls léku sex kylfingar undir pari í dag og er ljóst að það verður hart barist um Íslandsmeistaratitilinn 2015.

„Það er alltaf aðeins öðruvísi að leika hér á landi og sérstaklega eru flatirnar harðar. Ég þarf bara að eiga við þetta eins og allir aðrir. Völlurinn er í góðu standi og ekkert út á það að setja – vonandi verða flatirnar aðeins mýkri. Ég er búinn að vera nálægt þessu undanfarin ár og það er alltaf stefnan að ná efsta sætinu og ég þarf bara að halda áfram á sömu braut næstu daga,“ sagði Þórður Rafn en hann hefur leikið á nærri 20 atvinnumótum á þýsku Pro Golf mótaröðinni á þessu ári og hefur náð góðum árangri.

„Þetta var mjög fínt, ég er sáttur. Ég hélt mér á svæðunum sem ég vildi vera á. Það var einn skolli sem ég var ekki sáttur með. Völlurinn er frábær og veðrið var geggjað. Flatirnar eru harðar en það er fínn hraði á þeim. Ég er mjög sáttur að vera undir pari og það var planið að vera undir pari til að vera í baráttunni,“ sagði Axel Bóasson úr Keili en hann lék á 69 höggum eða -3 og er hann í öðru sæti á eftir Þórði Rafni Gissurarsyni.

„Þetta var slæmur góður dagur – völlurinn var frábær en ég gerði engin stór mistök. Þetta hefði mátt vera betra en fór eftir plani. Ég hitti flatirnar og tvípúttaði of oft,“ sagði Andri Þór Björnsson úr GR en hann lék á +1 í dag eða 73 höggum. Andri er í efsta sæti stigalista Eimskipsmótaraðarinnar og hefur nú þegar sigrað á tveimur mótum.

Staða efstu kylfinga í karlaflokki eftir 1. hring:

1. Þórður Rafn Gissurarson, GR 67 högg (-5)

2. Axel Bóasson, GK 69 högg (-3)

3. Ragnar Már Garðarsson, GKG 70 högg (-2)    

4.–6. Andri Már Óskarsson, GHR 71 (-1)             

4.–6. Haraldur Franklín Magnús, GR 71 högg (-1)

4.–6. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR 71 högg (-1)

7.-8. Ágúst Ársælsson, GVS 72 högg par

7.-8. Ólafur Björn Loftsson, GKG 72 högg par

9.- 11. Henning Darri Þórðarson, GK    73 högg (+1)

9.- 11.Stefán Már Stefánsson, GR 73 högg (+1)    

9.- 11. Andri Þór Björnsson, GR 73 högg (+1)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×