Handbolti

Einar Andri: Árangurinn samspil margra þátta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar í Olís-deild karla, segir að ef allt smellur hjá U19-ára landsilðinu í handbolta gæti liðið farið alla leið í úrslit á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Ísland er komið í átta liða úrslit eftir sigur á Suður-Kóreu í morgun, en Ísland mætir Brasilíu í átta liða úrslitunum á morgun.

„Þetta er búið að vera frábært mót hjá strákunum. Þeir eru búnir að vinna alla leikina í riðlinum og áttu frábæran leik í morgun gegn Suður-Kóreu sem tryggði þá í átta liða úrslit," sagði Einar í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur.

„Það eru gríðarlega margir flottir strákar í liðinu sem eru að stimpla sig rækilega inn. Ég held að liðið eigi, ef allt smellur saman, möguleika á að fara lengra."

Einar Andri bendir á flestir okkar strákar séu í lykilhlutverkum hér heima og það hjálpi íslenska liðinu.

„Flestir strákarnir sem eru þarna í lykilhlutverkum hafa verið að spila mikið í vetur og í fyrra, virkilega stór hlutverk í sínum liðum. Við höfum það kannski yfir marga stráka í hinum liðunum."

„Þeir eru kannski ennþá í yngri flokka bolta í sínum löndum, en okkar strákar eru að taka mikla ábyrgð enda deildin hér heima alltaf að verða yngri og yngri í rauninni."

„Það er búið að leggja mjög mikinn metnað í kringum þetta lið í sumar og þessi árangur sem þeir eru að ná núna er samspil margra þátta. Þjálfarar, leikmenn og HSÍ eru að standa virkilega vel að þessu. Það er vonandi að það verði framhald á," sagði Einar Andri að lokum.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×