Innlent

Engin breyting á utanríkisstefnunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður utanríkismálanefndar segir enga umræðu eiga sér stað í nefndinni um breytingar á utanríkisstefnu þjóðarinnar vegna innflutningsbanns Rússa. Sjávarútvegsráðherra segir einstaka hagsmunaaðila ekki ráða utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Embættismenn í utanríkisráðuneytinu komu á fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem farið vari yfir allan feril málsins allt frá því Íslendingar tóku fyrst þátt í þvingunaraðgerðum Rússa vegna framferðis þeirra á Krímskaga. En einhugur hefur verið í nefndinni um þátttöku Íslands í aðgerðunum.

Heldur þú að það breytist eitthvað við það að þessi staða er komin upp?



„Ég hef ekki tilfinningu fyrir því að það breytist að það breytist með þessum hætti. Auðvitað hafa menn þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er komin upp,“ segir Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar.

Innan nefndarinnar sé rætt hvernig hægt sé að bregðast við þeirri stöðu sem kominn er upp með skynsamlegum hætti.

„Það er enginn að tala fyrir stefnubreytingu Íslands í utanríkismálum. En menn velta fyrir sér með hvaða praktíska hætti er hægt að mæta því áfalli sem þessi ákvörðun Rússa getur haft í för með sér,“ segir Birgir.

Umfang aðgerða Rússa sé ekki í samræmi við umfang þeirra aðgerða sem Íslendingar hafi stutt gagnvart þeim.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir ekki rétt að hagsmunaaðilar hafi ekki verið upplýstir um málið.

„Það hafa auðvitað verið höfð samskipti við hagsmunaaðila m.a. með fundum upp í utanríkisráðuneyti. Það er auðvitað eins og hefur komið fram hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum að einstakir hagsmunaaðilar á einstökum sviðum móta ekki utanríkisstefnu heillar þjóðar.“

Nú sé nauðsynlegt að fá nánari útskýringar frá Rússum.

„Það hefur komið fram m.a. í samskiptum mínum við sendiherrann (rússneska) í gær að um tímabundnar aðgerðir væri að að ræða. Við þurfum auðvitað að horfa til lengri tíma og hins vegar þurfum við að skoða hér heima með hvaða hætti þetta hefur áhrif á einstak byggðir, einstök fyrirtæki og þjóðarbúið í heild sinni. Því það er margt sem bendir til að þetta geti haft veruleg áhrif á það,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.


Tengdar fréttir

Þvinganir gætu komið Íslandi verst

Rússland hefur sett viðskiptabann á Ísland. Stjórnvöld vinna í að finna út hversu víðtækt bannið er. Fjármálaráðherra útilokar ekki aðgerðir til stuðnings útflutningsfyrirtækjum og segir að það megi hafa efasemdir um það hvort viðskiptaþvinganir skili sér.

Óvissa um makrílfarminn

Verð á makrílafurðum lækkar enn á heimsmarkaði eftir að Rússar ákváðu innflutningsbann í gær. Þær hlaðast nú upp í frystigeymslum og hætt var við brottför tveggja flutningaskipa með makríl til Rússlands í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×