Erlent

Bretland mun taka á móti þúsundum flóttamanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sýrlenskir flóttamenn sem hafa komist hafa yfir til Tyrklands.
Sýrlenskir flóttamenn sem hafa komist hafa yfir til Tyrklands. vísir/getty
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að landið muni taka á móti þúsundum flóttamanna sem nú er á vergangi vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.

Stöðugur fréttaflutningur hefur verið síðustu daga af ófremdarástandi í málefnum flóttamanna sem í þúsunda tali hætta lífi sínu og limum til að komast til Evrópu í von um betra líf. Hafa stjórnvöld í álfunni verið gagnrýnd harðlega fyrir að bregðast ekki nógu hratt við.

Fyrr í vikunni sagði Cameron að það að taka á móti fleiri flóttamönnum væri ekki einfalt svar við ástandinu sem hefur skapast. Var Cameron gagnrýndur harðlega og hefur verið mikill þrýstingur á hann og ríkisstjórnina að láta til sín taka.

Til að mynda hafa hátt í 400.000 manns skrifað undir áskorun þess efnis að Bretar taki á móti fleiri flóttamönnum.

„Það er siðferðisleg skylda okkar Breta að hjálpa flóttamönnum, líkt og höfum gert áður í sögunni,“ sagði Cameron á fréttamannafundi í dag.

Cameron sagði að flóttamennirnir kæmu frá flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna á landamærum Sýrlands og nágrannaríkja. Ekki er því um að ræða flóttamenn sem eru nú þegar komnir til Evrópu.

Hét hann því að finna langtímalausnir á vandanum. Cameron nefndi enga sérstaka tölu í ræðu sinni en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið það út að Bretland muni taka við 4000 sýrlenskum flóttamönnum.


Tengdar fréttir

Kirkjan safnar fé fyrir flóttamenn

Biskup Íslands hvatti í gær söfnuði Þjóðkirkjunnar til að efna til samskota í kirkjum landsins sunnudaganna 13. september og 20. september til stuðnings Hjálparstarfi kirkjunnar í starfsemi sinni innan ACT – Alliance á Sýrlandi og Jórdaníu vegna flóttamannavandans. Þetta kom fram í tilkynningu frá Biskupsstofu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×