Lífið

Heimurinn er á hreyfingu og ég neita að sitja kyrr

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona segir tímann sem hafi liðið á milli hlutverka hafa hjálpað henni að komast yfir komplexa og gert það að verkum að hún gat einbeitt sér hundrað prósent að hlutverkinu og sögunni.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona segir tímann sem hafi liðið á milli hlutverka hafa hjálpað henni að komast yfir komplexa og gert það að verkum að hún gat einbeitt sér hundrað prósent að hlutverkinu og sögunni. Vísir/AntonBrink
Ég er hætt að leika, þannig að því sé haldið til haga,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og skellir upp úr þegar samtalið hefst.

„Þó að ég hafi tekið þátt í þessum tveimur verkefnum í sumar þá þýðir það ekkert að ég ætli í leiklistina aftur. Það þarf eitthvað svona sérstakt að koma til. Ég er hætt, nema þegar mér býðst æðislegt hlutverk. Er það ekki ágætis plan?“

Hana kannast margir við af fjölum leikhúsanna en hún sagði skilið við leiklistina fyrir rúmum tíu árum. Hún fer þó með aðalhlutverkið í þriðju seríu af þáttaröðinni Réttur en fyrsti þátturinn verður frumsýndur á sunnudaginn. En líkt og kemur fram þá er hún ekki snúin aftur í leiklistina – sum tilboð eru bara of góð til að hafna.

Ókúl löggudúó

„Það var bara ein ástæða fyrir því að ég tók þetta að mér og hún var sú að Baldvin Z var að leikstýra. Ég lék lítið hlutverk í Ófærð í sumar og vann þar með fullt af ungum frábærum leikstjórum. Baldvin var einn af þeim og þegar hann bað mig um að leika í Rétti þá þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um,“ segir Steinunn Ólína.

„Baldvin er skarpur leikstjóri og hefur þann eiginleika að maður ber fullt traust til hans, það er því lúxus að vinna með honum. Handritið var líka mjög freistandi. Það er mjög nærgöngult og fjallar um hluta íslensks samfélags sem er kannski frekar hulinn að öllu jöfnu,“ segir hún og bætir við að handritið sé á margan hátt óvenjulegt og ekki sé um hefðbundna glæpaþáttaröð að ræða þar sem einblínt er á að leita brotamanninn uppi.

„Það er vissulega framinn glæpur en raunverulega ber allt samfélagið ábyrgð. Þræðirnir liggja í gegnum allar stéttir samfélagsins.“ Þáttaröðin fjallar um lögreglurannsókn sem teygir anga sína víða þar sem samfélagsmein á borð við hefndarklám, einelti á internetinu, eiturlyfjaneyslu og týndar unglingsstúlkur koma við sögu. Handritið er skrifað af þeim Andra Óttarssyni og Þorleifi Erni Arnarssyni.

Steinunn Ólína leikur rannsóknarlögreglukonuna Gabríelu og samstarfsfélaga hennar, Högna, leikur Þorsteinn Bachman. „Teymið sem við leikum er sérstakt fyrir þær sakir að þau eru alveg klárlega mest ókúl löggudúó sem sést hefur,“ segir hún og hlær. „Við, ásamt Baldvini, leituðumst við að hafa þau sem venjulegust. Þetta eru bara Reykjavíkurlöggur. Fólk af holdi og blóði. Gabríela og Högni eru ekkert með sérstaklega góða félagshæfni og bæði nörd­ar í sínu fagi.“

Við gerð þáttaraðanna var lagst í mikla heimildavinnu og lögð var áhersla á að leita ráðgjafar fagfólks úr ýmsum starfsstéttum til þess að þættirnir endurspegluðu íslenskan veruleika á sem raunsæjastan máta og þar voru leikararnir í engu undanskildir. „Við hittum rannsóknarlögreglur í upphafi ferlisins og þetta er auðvitað bara venjulegt fólk.“

Í glæpaseríum er oft og tíðum lögð áhersla á að breyta rannsóknarlögreglunum í töffara og hetjur sem ekkert fær á. „Við unnum á móti því og það var mjög skemmtilegt. Þau eru eiginlega bara alveg rosalegir lúðar.“

Annað aðalhlutverk í seríunni leikur Magnús Jónsson auk þess sem fjöldi ungra leikara kemur við sögu sem Steinunn Ólína segir hafa verið skemmtilegt að vinna með.

Eins og að læra að hjóla

Helstu ástæður þess að Steinunn Ólína hætti að leika segir hún hafa verið þær að hana langaði til þess að sjá hvort lífið hefði ekki upp á eitthvað annað að bjóða, enda hafði hún verið viðloðandi leikhúsin frá barnæsku og hafði starfað í leikhúsinu í rúm tuttugu ár þegar hún hætti.

„Lífið er of stutt. Við eigum að freista þess að lifa mörgum lífum á þessum fáu árum sem við fáum,“ segir hún og bætir við að hún telji áhersluna á að velja einn feril í upphafi starfsævinnar ákaflega takmarkandi. Hún telur að þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi núna muni hugsa og vinna á annan hátt því í dag sé enn auðveldara en áður að leita þekkingar og mennta sig á mörgum sviðum og því ekki nauðsynlegt að festa sig við einn starfsferil.

En var þá ekkert erfitt að leika aftur eftir svona langt hlé?

„Leikari verður alltaf leikari. Það var enginn kvíði í mér fyrir því að fara að leika aftur en engin sérstök eftirvænting heldur. Mér fannst þessi tími sem hafði liðið hafa hjálpað mér mjög mikið og losað mig við alls konar komplexa sem ég hafði þegar ég var yngri. Það var léttir og ég var laus við það að vera upptekin af einhverjum smáatriðum sem engu skipta og gat einbeitt mér alveg hundrað prósent að hlutverkinu og sögunni.“

Steinunn Ólína fagnar þeirri þróun að leikkonum á miðjum aldri bjóðist í auknum mæli aðalhlutverk í þáttaröðum á borð við Rétt. „Ég hugsa að fyrir nokkrum árum hefði öllum þótt óhugsandi að vera með miðaldra konu í aðalhlutverki sem löggu. Það hefur verið normið að hún væri í kringum tuttugu og fimm ára aldurinn, ótrúlega sæt og rosalegt hönk að leika á móti henni,“ segir hún og bætir við að hún fagni þessari þróun, sem er ekki séríslensk, því þetta sé oft erfiður aldur fyrir leikkonur.

Gott að vinna ein

Í dag er hún ritstjóri Kvennablaðsins og nýtur þess að vinna heima við þegar hún á þess kost. „Ég stjórna vinnutímanum mikið sjálf. Suma daga er ég mikið á fundum og svo eru aðrir dagar þar sem ég get leyft mér að vera heima á náttfötunum og vinna,“ segir hún og brosir út í annað.

Ritstjórnarstörfin voru þó ekki eitthvað sem hafði blundaði í henni, heldur áhugi sem kviknaði eftir að hún gaf út skáldsöguna Í fylgd með fullorðnum árið 2005. „Ég hafði ekkert gengið með það í maganum að skrifa. Ég bara settist niður og skrifaði bók. Þessi bók var ákveðin hreinsun fyrir mig og mjög góður skóli.“ Þegar hún flutti til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni árið 2005 hóf hún að skrifa pistla fyrir Morgunblaðið og fann fljótlega að þar var eitthvað sem kitlaði. Einnig fannst henni gott að vinna ein eftir að hafa starfað í leikhúsunum um árabil.

„Eftir að hafa unnið á mjög mannmörgum vinnustað þar sem allir eru ofan í öllum og allt gengur út á samvinnu þá fannst mér einhver hvíld í því að vinna aðeins ein. “

Kvennablaðið var stofnað í nóvember fyrir tveimur árum og verður tímamótunum fagnað með útgáfu tímarits sem verður dreift frítt. „Þessi vegferð okkar Soffíu Steingrímsdóttur framkvæmdarstjóra er búin að vera alveg frábær. Þetta er búið að ganga alveg ótrúlega vel,“ segir hún og bætir við: „Þó að reksturinn sé stundum ­erfiður af því að við njótum ekki stuðnings bakhjarla eða styrkja þá hef ég fulla ástæðu til þess að vera bjartsýn,“ segir hún og hlær dátt þegar hún er spurð að því hvort hún stefni þá ekki á að skipta um starfsvettvang á næstunni: „Nei. Frekar færa út kvíarnar ef eitthvað er, við erum alveg óbangnar.“

Neitar að sitja kyrr

Fjölskyldan skiptir tíma sínum á milli Íslands og Bandaríkjanna þar sem Stefán Karl Stefánsson, eiginmaður Steinunnar Ólínu, vinnur hluta ársins. Hann heldur utan innan skamms til þess að leika sjálfan Trölla og fjölskyldan fylgir honum eftir þegar nær dregur jólum.

Framtíðina segir hún óráðna og þannig vill hún hafa hana. Henni líður alls staðar vel svo lengi sem hún er með fólkið sitt í kringum sig. „Heimurinn er á hreyfingu og ég neita að sitja kyrr. Ég veit ekkert hvað ég geri á næsta ári og ég vil ekki ákveða það. Mér finnst stöðugleiki alveg rosalega lítið eftirsóknarverður,“ segir hún og bætir við að svona hafi hún verið frá barnæsku.

„Þetta ristir miklu dýpra en að vera eitthvert rótleysi. Mér finnst að maður eigi að njóta þeirra tækifæra sem koma upp í hendurnar á manni. Maður skuldar sjálfum sér það. Taka sénsa, taka stundum rangar ákvarðanir, læra af því, vera alltaf að læra og prófa eitthvað nýtt. Það er ekkert verra en að staðna í hugsun.“

Steinunn Ólína segist í gegnum tíðina hafa verið heppin að fá að vinna við sín hugðarefni. „Ég hef notið þeirra forréttinda að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og það er dálítið þannig að ef það er til staðar þá er lífið auðveldara. Ég finn til með fólki sem er óhamingjusamt í starfi og ég held að það séu mjög margir sem nýti hæfileika sína ekki nógu vel. Ég held að við þær aðstæður verði fólk mjög óhamingjusamt,“ segir hún hugsi og heldur áfram: „Lykillinn að hamingjunni er auðvitað að eiga góða fjölskyldu, góða vini og maður vonar að allir séu heilbrigðir og kátir í kringum mann en stærsti hluti af hamingju hvers og eins er fólginn í því að hæfileikar hans fái að njóta sín.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×