Körfubolti

Pavel fór meiddur af velli í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Vilhelm
Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi KR, var studdur af velli í kvöld þegar KR-ingar unnu öruggan 23 stiga sigur á Haukum, 95-72, í 3. umferð Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld.

„Það er áhyggjuefni að Pavel virðist hafa tognað á kálfa," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR um meiðsli Pavel Ermolinskij eftir leikinn í kvöld.

Pavel Ermolinskij vantaði bara tvær stoðsendingar upp á þrennuna í fjórða leikhluta þegar hann lagðist sárþjáður í gólfið.

Pavel var síðan studdur af velli og kom ekki meira við sögu. KR-ingar hafa örugglega miklar áhyggjur af þessum meiðslum en Pavel hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli undanfarin misseri.

Pavel endaði leikinn með 13 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar á 29 mínútum en KR vann með 17 stigum þegar hann var inná vellinum.

Pavel hefur misst af leikjum undanfarin tvö tímabil og svo gæti farið að hann missi líka af næstu leikjum KR-liðsins. Það á eftir að koma betur í ljós hversu alvarleg þessi meiðsli eru.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×