Körfubolti

Jón Axel kom sér viljandi á Þrennuvegginn: „Þetta er ekki frákast“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Friðriksson hafði lítinn húmor fyrir frákastinu sem kom Jóni Axel Guðmundssyni aftur á þrennuveginn í Dominos-Körfuboltakvöldi.

Jón Axel Guðmundsson, leikstjórnandi Grindavíkur í Dominos-deild karla í körfubolta, átti stórleik þegar Grindjánar lögðu nýliða Hattar í annarri umferð deildarinnar.

Jón Axel náði í aðra þrennu sína í jafn mörgum leikjum og er eini maðurinn sem er búinn að fá nafn sitt á Þrennuvegginn í Dominos-Körfuboltakvöldi.

Þessi gríðarlega efnilegi leikstjórnandi var vel meðvitaður um tölfræði sína í leiknum og gerði í því að ná þrennunni með frákasti eftir að kasta boltanum í spjaldið og grípa hann svo.

„Þetta er þrenna og ekki þrenna. Það var hvíslað að mér að ég ætti tvö fráköst eftir í þrennuna. Ég tók eitt varnarfrákast og bjó svo til mitt eigið frákast í lokin. Menn verða að dæma fyrir sig sjálfirm“ sagði Jón Axel í viðtali við Vísis eftir leik.

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Dominos-Körfuboltakvölds, sagðist alltaf halda með þrennunum og setti Jón Axel öðru sinni á vegginn. Kristinn Friðriksson, einn sérfræðinga þáttarins, var þó ekki sáttur.

„Það er ekki frákast að kasta boltanum beint í spjaldið og grípa hann svo. Þetta er ekki skottilraun. Einfalt. Sá sem hvíslaði þessu að honum er sá seki. Þetta á ekkert að vera pæling,“ sagði Kristinn og Hermann Hauksson bætti við:

„Ég trúi því ekki að menn séu að hugsa um tölurnar sínar á meðan leik stendur. Ég neita að trúa því.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×